Miðflokkurinn leggst gegn Þjóðarsjóði og umhverfissköttum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á fundinum í Reykjanesbæ í dag.

Miðflokkurinn leggst gegn stofnun Þjóðarsjóðs og vill nýta féð í að draga úr álögum eða nota það í innviðauppbyggingu. Eins var skattagleði ríkisstjórnarinnar í umhverfismálunum hafnað.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í nýsamþykktri stjórnmálastefnu á flokksráðfundi Miðflokksins sem haldinn var í Reykjanesbæ og lauk í kvöld. Helstu áherslur í stefnunni eru eftirtaldar:

Þétt setinn bekkurinn á flokksráðsfundi Miðflokksins i dag.
  1. Opinber stjórnsýsla og einföldun regluverks.
    Við ætlum að lækka skatta, leggja áherslu á ráðdeild og skilvirkni ríkisrekstrar, draga úr umfangi íþyngjandi regluverks og virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga varðandi sameiningar.
  2. Málefni eldri borgara og lífeyrisþega
    Við ætlum m.a. að efna loforð stjórnvalda um að leiðrétta kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur og afnema skerðingar sem draga úr hvata til sjálfsbjargar og koma á sveigjanlegum starfslokum.
  3. Heilbrigðismál
    Við ætlum að bregðast við bráðavanda Landspítala m.a. með endurskoðun á stjórnun, mönnun og innkaupum, byggja upp heilbrigðissþjónustu á landsbyggðinni og reisa nýjan landspítala á nýjum stað.
  4. Staða iðn- og verkmenntunar
    Við ætlum að efla iðn- og verkmenntun m.a. í samvinnu við atvinnulífið og tryggja að iðnám sé metið jafnt á við bóknám.
  5. Orkustefna til framtíðar
    Við höfnum orkustefnu ESB en styðjum orkustefnu sem tryggir nýtingu og arð til samfélagslegra verkefna, við viljum áfram takmarka framsal valds í stjórnarskrá og stöðva orkupakka 4 leiði hann til frekara framsals fullveldis eða framsals stjórnunar auðlinda.
  6. Innlend matvælaframleiðsla
    Miðflokkurinn vill sóknaráætlun fyrir íslenska matvælaframleiðslu byggða á langtímastefnu um fæðuöryggi, samfélagslegu mikilvægi og byggðaþróun.
  7. Efling ferðaþjónustu og atvinnulífs
    Við ætlum að lækka tryggingagjald og efna til samtals við sveitarfélögin um lækkun skatta á atvinnuhúsnæði ásamt því að vinna með atvinnulífinu að eflingu þess.
  8. Umhverfismál
    Við höfnum skattagleði ríksstjórnarinnar og viljum raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum í stað sýndaraðgerða. Nýta þarf sorp, auka skógrækt og innlenda framleiðslu.
  9. Samgöngur og flugumferð
    Við höfnum auknum umferðarsköttum, leggjum áherslu á uppbyggingu varaflugvalla og bætta aðstöðu á Keflavíkurflugvelli.
  10. Þjóðarsjóður í skugga skattheimtu
    Miðflokkurinn leggst gegn stofnun þjóðarsjóðs og vill nýta fjármunina í innviðauppbyggingu og/eða lækkun álaga á heimili og fyrirtæki.
  11. Bætt löggæsla og aðgerðir gegn fíkniefnavá
    Við ætlum að efla forvarnir og merðferðarúrræði í samstarfi við fagaðila, styrkja lög- og tollgæslu í baráttunni við innflutning ólöglegra fíkniefna, lyfja o.þ.h.
  12. Heildstæð byggðastefna
    Við ætlum að efla landið allt með heildstæðir byggðastefnu þar sem önnur stefnumótun t.d. orkustefna, sókaráætlun í matvælaframleiðslu og umhverfisstefna vinnur saman.