Mikil óánægja með fundi í borgarráði: „Algjörlega miður mín“

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins.

„Sæl, ég er algerlega miður mín eftir þennan borgarráðsfund sem nú er að ljúka og fokreið. Hér voru endalausar kynningar og seint og síðar meir þegar komið var að því að ræða mál flokkanna var maður skikkaður til að ákveða hvort maður vildi láta fresta málunum sínum eða þau afgreiðast án nokkurra orða. Þetta er með öllu óþolandi. Ég hef reynt að ræða þetta hér en ekki gengið. Þetta er vond líðan að finna það ítrekað að engin virðing sé borin fyrir því sem minnihlutinn er að reyna að gera í borginni.“

Þannig er inngangur að bréfi Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, sem hún sendi Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanni borgarráðs, á dögunum.

Viljinn hefur bréfið undir höndum, en mikil óánægja er meðal borgarfulltrúa með skipulag í Ráðhúsinu og breytingar sem hafa orðið í kjölfarið á fjölgun borgarfulltrúa.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.

Í borgarstjórnarkosningunum í vor var borgarfulltrúum fjölgað úr 15 í 23. Það hefur orðið til þess að fundir lengjast frá því sem var og mörg mál komast ekki á dagskrá.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði í Morgunblaðinu í gær, að gamla kerfið sem miðaði við færri fulltrúa virki ekki við breyttar aðstæður. Hún vill fjölga borgarstjórnarfundum og hafa þá vikulega og borgarráð fundi tvisvar í viku.

Kolbrún segist upplifa mikinn yfirgang meirihlutans á fundum borgarráðs og þeirra sem ráði dagskránni og hvaða mál komist að og hver ekki.

„Yfirgangurinn er alger eins og ég er að upplifa þetta. Ég vil fá vinnufund um þessi mál eða hvað á að kalla það og það hið allra fyrsta. Það gengur ekki að hafa þessa borgarráðsfundi svona. Í raun er staðan sú að það er í raun engin umræða um neitt lengur, hvorki er hægt að fylgja máli eftir hvað þá að fá viðbrögð þótt vitað sé svo sem hver afdrif mála minnihlutans verða í amk 90 prós. tilfellum. En það er svosem annað mál. Það verður bara að verða bragarbót gerð á þessu,“ segir hún í bréfinu til formanns borgarráðs.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi.