„Það er ljóst að miklir hagsmunir eru fyrir lífeyrissjóðana að samruninn gangi vel,“ segir Snorri Jakobsson ráðgjafi hjá Capacent um fyrirhuguð kaup Icelandair á flugfélaginu WOW air.
Eins og Viljinn hefur skýrt frá í dag, er uppi vaxandi óvissa um að viðskiptin gangi eftir. Samningsstaða WOW versnar dag frá degi vegna lausafjárstöðu félagsins og nú hefur verið tilkynnt að ólíklegt sé að hægt sé að afgreiða kaupin á boðuðum hluthafafundi í Icelandair Group á föstudag þar sem fyrirvarar hafi enn ekki verið uppfylltir.
Fyrirvarar um kaupin voru samþykki Samkeppniseftirlitsins, samþykki hluthafafundarins og niðurstaða úr áreiðanleikakönnun á WOW air.
Snorri bendir á að lífeyrissjóðirnir séu stærstu hluthafar í Icelandair. Þeir viti að það sé mikið undir í málinu.
„Ef ekki verður af samrunanum mun það hafa áhrif á fjölda ferðamanna, ferðaþjónustu og fasteignafélögin, svo eitthvað sé nefnt sem lífeyrissjóðirnir hafa lánað til,“ segir Snorri í samtali við Viljann í dag.