Minnir á gapastokk miðalda og opinber smánun valdatæki

Frosti Logason útvarpsmaður á X-inu.

Umræðan á samfélagsmiðlum er farin að minna á gapastokk miðalda og opinbera smánun sem valdatæki, segir Frosti Logason stjórnmálafræðingur og útvarpsmaður í Harmageddon á X-inu.

Hann var gestur í Silfrinu í dag, þar sem meðal annars var rætt um Klaustursmálið og viðbrögðin við því undanfarna daga.

Frosti segir að samfélagsmiðlar hefðu gert mikið gagn og væru til margra hluta nytsamlegir. Þeir ættu þó sannarlega sínar skuggahliðar, einkum þegar kæmi að opinberri smánun.

„Hvort myndirðu vilja vera í þeirri stöðu að sex fylliraftar hafi talað illa um þig inni á bar eða tugþúsundir eða hundruð þúsund Íslendinga leggjast allir á eitt í keppni um að skrifa hvern annan vandlætingarstatusinn,“ sagði Frosti.

Hann tók fram að hann vilji ekki gera lítið úr líðan þeirra sem um hefði verið fjallað með rætnum hætti.

Þetta er eitrað, þetta er mannskemmandi.

Opinbera smánunin hefði náð ákveðnu hámarki í Borgarleikhúsinu á dögunum þegar ummælin sem fram komu í upptökunum voru sett á svið í leiklestri fyrir framan fullan sal af fólki sem klappaði og hló að óförum annarra.

Hann sagði þetta minna á myrkar miðaldir þegar opinber smánun var mikilvægt valdatól. Þá hefði gapastóllinn verið notaður og virkað svo vel að menn lögðu hann af.

„Þetta er eitrað, þetta er mannskemmandi. Þessi kúltúr sem er kominn á samfélagsmiðlunum er vísir að þessu. Við erum komin aftur í þennan tíma.“

Umræðuna í Silfrinu má sjá hér.