#MeToo-hreyfingin hefur, að tveimur árum liðnum, umbreytt konum í rolur og körlum í ófreskjur. Þetta skrifar einn ritstjóra Spiked, Joanna Williams, í grein í miðlinum þann 10. október sl., og Viljinn þýddi lauslega.
Október markar tveggja ára afmæli #MeToo-byltingarinnar, sem byrjaði með ásökunum um kynferðislegt ofbeldi Hollywood mógúlsins Harvey Weinstein. Hún tók fljótlega hamskiptum og hreinsunareldurinn breiddist út á öllum stigum samfélagsins í heiminum. Hreyfingin snerti stjórnmálin – allt frá tilnefningum í hæstarétt Bandaríkjanna – til velsku heimastjórnarinnar. #MeToo varpaði löngum skugga yfir kvikmyndir, leikhús, fjölmiðla, menntastofnanir, lagastofnanir, heilbrigðisstéttirnar og óperuhúsin. #MeToo inniheldur allt frá saknæmum afbrotum til hinna léttvægustu atvika daglegs lífs.
En hver er niðurstaðan?
Það er orðið tímabært að gera almenna úttekt á #MeToo-hreyfingunnni. Til að byrja með, þá eru fimm atriði sem hún hefur kennt okkur.
Konur eru amlóðar
Gleymum sögum af sigldum konum sem drápu rólega í sígarettunni á káfandi krumlum, stungu oddvössum hælum ofan í ristina á uppáþrengjandi dónum eða löðrunguðu þá. Samkvæmt sjálfskipuðu forystufé #MeToo-hreyfingarinnar, eru réttu viðbrögðin við klípum og káfi, að brosa meinleysislega og aðhafast ekkert. Ekki fyrr en 20 árum síðar, þegar konurnar geta með öryggi stigið fram, og lýst áfallinu sem þær urðu fyrir í smáatriðum á síðum blaðanna. #MeToo hefur sannfært heila kynslóð ungra kvenna um að ekkert sé of léttvægt til að vera tilkynnt til yfirvalda, og til opinberrar dreifingar um allan heim.
Miðstéttarkonur eiga samúð skilda, umfram aðrar konur
Umtalsvert hefur frést af þrautagöngu miðstéttarkvenna og hnjám þeirra á fínum veitingahúsum í London, en þeim mun minna af lágstéttarstúlkunum í Rotherham, Huddersfield og Telford. Þessar stúlkur, margar yngri en 16 ára, voru gerðar út og misnotaðar kynferðislega af, nú dæmdum, múslímakörlum. Samt sem áður hafa miðstéttarhnén fengið fleiri fyrirsagnir blaðanna, fleiri dálksentimetra og fleiri myllumerki á samfélagsmiðlunum en þessi skelfilegu mál. Ef til vill eru þessar stúlkur ekki nægilega áhugavert fréttaefni. Eða kannski voru gerendurnir of „viðkvæmt mál“ til að fjalla um. Til að fá samúð með #MeToo-sögunni sinni þarf helst að geta bent fingrum á fræga einstaklinga og stjórnmálamenn, t.d. á borð við Boris Johnson eða Donald Trump.
Betrun er tilgangslaus
Hversu lengi þarf að bíða þar til má hlæja að grínistum sem fallið hafa í ónáð, eins og t.d. Louis CK, aftur? Hinn „fallni“ grínisti er að skemmta í Kanada þessa vikuna og blaðamenn hafa skýrt frá því með hryllingi hvernig fólk hefur staðið í röðum til að komast á uppistand hjá honum, þar sem það hefur hlegið sig máttlaust og klappað í lokin. Að sjálfsögðu var sú skýring gefin að gestirnir hafi að mestu verið hvítir karlmenn. Miskunnarlaus boðskapur #MeToo kennir okkur að fyrirgefa aldrei og að betrun sé tilgangslaus þeim sem hafa verið sakaðir um kynferðislega áreitni. Eins hafi grunnstef réttarríkisins um að menn séu saklausir uns sekt er sönnuð ekkert gildi lengur. Tökum Harvey Weinstein. Hann á að vera svo augljóslega sekur í augum #MeToo-hreyfingarinnar, að það virðist ekki taka því að draga hann fyrir dómstóla. Eða eins og nemendur Harvard-háskólans fóru fram á, að hann fengi ekki að njóta aðstoðar verjanda.
Áreitni ákvörðuð af upplifun
#MeToo hófst með alvarlegri ásökun um nauðgun. En eftir því sem hreyfingin breiddi úr sér, dró úr alvarleika hinna meintu glæpa. Joe Biden kyssti kollinn á höfði konu. Morgan Freeman á að hafa snert bakið á ungri konu. Greint var frá því að Aziz Ansari hefði skenkt konu glas af rauðvíni er hún hafði heldur kosið að drekka hvítvín. Þetta var, í versta falli, ruddaskapur. En #MeToo kennir okkur að það er engin óhlutdræg skilgreining á kynferðislegri áreitni. Sé einhver framkoma óumbeðin, og kynferðisleg áreitni í augum kvenna, þá sé það staðreynd. Samhengi, ásetningur og hegðun karlmanna er léttvæg fundin gagnvart upplifun kvenna.
Aðskilnaður kynjanna í framtíðinni
#MeToo kennir okkur, umfram allt annað, að öll samskipti kynjanna bjóði upp á vandræði. Í háskólunum er kennt að snerting þarfnist afgerandi samþykkis. Kennarar eru hvattir til að loka aldrei dyrum skrifstofa sinna, til að koma í veg fyrir að verða ásakaðir um kynferðislega áreitni. Hegðunarreglur stýra samskiptum nemenda og starfsmanna. Mörg hamingjusöm hjónabönd hafa byrjað með daðri á vinnustað, en starfsmannastjórnir eru nú líklegar til að framfylgja stefnu til að kæfa slíkan rómans í fæðingu. Eftir #MeToo, hefur meirihluti karlkyns yfirmanna greint frá vanlíðan yfir að þurfa að þjálfa kvenfólk í nýju starfi. Vel gert femínistar – þvílíkur sigur fyrir konur!
Tveimur árum eftir upphaf #MeToo er enn beðið eftir að Weinstein fari fyrir rétt. Opinber hýðing hans ætti að hafa kennt konum að efla sjálfstraustið og varpa barnaskapnum fyrir róða. Öflugir hópar sem spruttu upp á samfélagsmiðlunum hefðu getað sýnt konum fram á, að þær eigi ekki að líða kynferðislega áreitni, og að fólk sé til staðar til að styðja þær, þurfi þær þess með. Í staðinn varð #MeToo að upphafningu rolugangs kvenna, alveg frá byrjun. Það er orðið tímabært fleygja því á ruslahauga sögunnar.