Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér framsal valdheimilda umfram aðrar reglugerðir sem Ísland hefur tekið upp í gegnum EES-samninginn. Hins vegar sé eðlilegt að spurningar vakni í hvert sinn sem reglugerðir sem þessar eru innleiddar.
„Það er alveg ljóst að mörgum Íslendingum blöskrar það framsal sem hefur átt sér stað frá Íslandi til erlendra stofnana, löggjafa og jafnvel dómstóla. Stjórnmálamenn verða að hlusta á þessar raddir, hlusta á þetta fólk hvort sem þessi þriðji orkupakki í sjálfu sér sé tilefni til þeirrar geðshræringar sem hefur gripið um sig meðal sumra,“ segir hún í viðtali við fríblaðið Mannlíf sem kom út fyrir helgi.
Dómsmálaráðherra veltir því upp hvort mistök hafi verið gerð í upphafi þegar ákveðið var að undanskilja orkumál ekki frá EES-samningnum. „Það var ekki gert og ef menn telja að það hafi verið mistök þá er sjálfsagt að skoða það hvort að við ættum að hefja viðræður við Evrópusambandið um hvort undanskilja eigi allan orkupakkann, ekki bara þriðja orkupakkann heldur þann viðauka sem snýr að orkumálum, alfarið.“
Eigi að síður telur Sigríður að EES-samningurinn hafi reynst mikið gæfuspor fyrir Ísland og eins og staðan er núna farnist Íslandi best að hafa hann.