Eins og er, þykir líklegra en ekki að núverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sigri næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum. Greiningarfyrirtækið Moody’s spáir því í september skýrslu sinni sem komin er út.
Grundvöllur spálíkana fyrirtækisins eru ýmsar breytur efnahagslífsins og niðurstöður í einstökum fylkjum Bandaríkjanna. Fyrirtækið ákvað að gera þær breytingar í spá sinni fyrir næstu forsetakosningar, árið 2020, m.a. að styðjast við meðaltalsniðurstöðu þriggja spálíkana, heldur en að velja eitt.
Clinton og Trump voru óvenjulegir frambjóðendur
Auk þess var ákveðið að notast við kjörsókn sem breytu til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna. Kjörsókn var með mesta móti fyrir kosningarnar árið 2016, og hafði það m.a. þau óvæntu áhrif að Donald Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna – eitthvað sem spár höfðu ekki séð fyrir. Stuðningsmenn Trump mættu í stórum stíl á kjörstað, á meðan stuðningsmenn Clinton létu sig vanta m.v. væntingar.
Eins höfðu spárnar áður ranglega gert ráð fyrir að frambjóðendur í seinni umferð forsetakosninganna, Hillary Clinton og Donald Trump væru „venjulegir“ forsetaframbjóðendur, sem hvorugt þeirra var. Síðasta breytingin var að stytta tímabilin sem efnhagslegar sveiflur eru reiknaðar á, í samræmi við styttra athyglisbil kjósenda, eitthvað sem hafði einnig breyst frá því áður, til dæmis varðandi eldsneytisverð.
Verði kjörsókn með mesta móti gætu Demókratar unnið
Pólitískar breytur eru vænt kjörsókn þeirra sem kjósa sjaldan, niðurstaða fyrri kosninga, þreyta (ef flokkur er búinn að vera lengi við völd), vænt kjörsókn kjósenda Demókrata sem kjósa sjaldan, og vinsældir sitjandi forseta. Efnahagslegar breytur eru eldsneytisverð, rauntekjur heimila, nafnverð húsnæðis, staðan á hlutabréfamarkaðnum og atvinnustig.
Öll þrjú líkönin spá sigri Trump, nema í því tilfelli sem kosningaþátttaka yrði með mesta móti. Þá myndu tvö af þremur þeirra spá sigri frambjóðanda Demókrata, og þar með auka líkurnar á því að næsti forseti Bandaríkjanna yrði úr þeirra röðum. Óvenju góð kjörsókn var fyrir kosningarnar árið 2016, og Moody’s spáir því að hún haldist – og muni jafnvel aukast enn. Enn er því ekkert í hendi og rúmt ár er fram að kosningunum.
Fyrirtækið hyggst birta nýja spá á þriggja mánaða fresti fram að þeim.