Það blæs hraustlega um Ríkisútvarpið í upphafi árs. Eins og Viljinn sagði frá í morgun, sagði Morgunblaðið í leiðara í dag að stjórnendur Ríkisútvarpsins kunni ekki að skammast sín og nú hefur útgefandi Fréttablaðsins sagt hið sama. Ritstjóri Fréttablaðsins sakar Ríkisútvarpið um yfirgang á ósanngjörnum og rammskökkum fjölmiðlamarkaði.
„Á ári hverju mætir forsætisráðherra rúmlega hálftíma of seint í beina útsendingu Kryddsíldarinnar, þar sem árið er gert upp með forystumönnum stjórnmálaflokkanna á Stöð 2. Ástæðan er sú að á sama tíma í Efstaleiti er ávarp forsætisráðherra tekið upp. Hvort tveggja er ómissandi liður hátíðarhaldanna á fjölda íslenskra heimila. Óskiljanlegt er hins vegar af hverju þetta tvennt þarf endilega að skarast.
Þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir af hálfu einkamiðilsins sér Ríkisútvarpið sér ekki fært að taka upp ávarpið, sem ekki er sýnt í beinni útsendingu, á neinum öðrum tíma en þeim tveimur klukkustundum sem Kryddsíldin er í loftinu. Þetta er einungis lítið dæmi um yfirgang Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði, en segir hins vegar heilmikla sögu.
Kryddsíldin er skrautfjöður Stöðvar 2, einkamiðils sem keppir á ósanngjörnum og rammskökkum fjölmiðlamarkaði, þar sem Ríkisútvarpið er alltumlykjandi. Á meðan einkareknir fjölmiðlar berjast í bökkum, geta stjórnendur í Efstaleiti ekki hugsað sér að láta Stöð 2 eftir eitt dagskrárbil á milli tvö og fjögur, einu sinni á ári,“ segir Ólöf Skaftadóttir, ritstjóri Fréttablaðsins í leiðara blaðsins í dag.
Flækist á öllum sviðum inn á umráðasvæði einkamiðla
Ólöf segir að þrátt fyrir skýrt og afmarkað hlutverk stofnunarinnar hafi hún á nánast öllum sviðum flækst inn á umráðasvæði einkamiðla. Mýmörg dæmi séu til dæmis um að opinberu fé sé ráðstafað í yfirboð á sápuóperum og erlendum íþróttaviðburðum.
„Til þess að einkareknir fjölmiðlar geti keppt við réttlát skilyrði þarf að ríkja jafnvægi á markaðnum. Ríkisútvarpið, sem sækir árlega milljarða í vasa skattgreiðenda og fær einnig að athafna sig óáreitt á auglýsingamarkaði, má ekki vísvitandi leggja stein í götu einkamiðlanna líkt og raunin er alltof oft. Til að mynda þegar stofnunin batt auglýsingafé fyrirtækja langt fram eftir hausti með auglýsingapökkum sínum í kringum HM í knattspyrnu í fyrra, á kostnað þeirra sjálfstætt starfandi miðla sem eiga allt sitt undir auglýsingatekjum.
Ríkisútvarpið ætti auðvitað að rifja upp sína sérstöðu og lögbundið hlutverk sitt í almannaþágu. Til eru ágætis rök fyrir því að hið opinbera tryggi öllum aðgang að fréttum, fræðslu og lýðræðislegri umræðu. Ríkisútvarpið hefur einfaldlega villst af leið og er í bullandi samkeppni á öllum vígstöðvum við einkamiðlana í ójöfnum leik. Ekkert bendir þó til þess að stjórnendur Ríkisútvarpsins líti þetta sömu augum, enda virðast þeir fyrir löngu hafa gleymt til hvers stofnuninni er haldið úti.
Hér er hins vegar lagt til að forsætisráðherra sýni það í verki að henni sé umhugað um að hér geti þrifist eðlileg flóra fjölmiðla í lýðræðisríki. Hún biðji um að tökum sé einfaldlega flýtt um rúman hálftíma. Klukkan tvö þurfi hún að vera mætt annað,“ segir Ólöf.
Málsaðilum ber ekki saman
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins, bregst við gagnrýninni með yfirlýsingu sem Fréttablaðið birtir í dag. Þar svarar útgefandi blaðsins, Kristín Þorsteinsdóttur, Skarphéðni jafnframt fullum hálsi og segir hann fara með ósannindi.
Frá Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV
Staðreyndir vegna upptöku á áramótaávarpi forsætisráðherra
„Um árabil hefur upptaka á áramótaávarpi forsætisráðherra verið með sambærilegum hætti. Hefðin sem skapaðist réðst fyrst og fremst af óskum og dagskrá ráðherra og því hefur ávarpið ætíð verið tekið upp strax í kjölfar ríkisráðsfundar sem haldinn er að morgni gamlársdags.
Í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag og í leiðara Fréttablaðsins í dag var því ranglega haldið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir því við RÚV að þessu fyrirkomulagi yrði breytt og ávarp forsætisráðherra væri tekið upp á öðrum tíma.
Þetta er ekki rétt. Engar beiðnir eða fyrirspurnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafa borist RÚV um breytingar á þessu fyrirkomulagi, a.m.k. ekki síðustu ár.
Sjálfsagt mál hefði verið að verða við þeirri beiðni að því gefnu að slíkar breytingar féllu að dagskrá ráðherra og að mögulegt væri eftir sem áður að ljúka vinnslu ávarpsins í tæka tíð fyrir birtingu ávarpsins að kvöldi gamlársdags. Það hefur verið stefna RÚV að eiga í góðu og uppbyggilegu samstarfi við aðra fjölmiðla eftir því sem við á hverju sinni og kostur gefst til. Eftir því hefur verið unnið og verður það áfram gert.“
Frá Kristínu Þorsteinsdóttur, útgefanda Fréttablaðsins
Að kunna ekki að skammast sín
„Dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins stígur fram og segir ekkert hæft í þeim orðum leiðarahöfundar Fréttablaðsins í dag, að forsvarsmenn fréttastofu Stöðvar 2, sem undirrituð rak og stýrði á árunum 2014 til 2018, hafi nokkru sinni leitað til stofnunarinnar í þeim tilgangi að hliðra til upptökum á áramótaávarpi forsætisráðherra.
Þessum fullyrðingum dagskrárstjórans hafnar undirrituð alfarið, enda var það hún sjálf sem hringdi ítrekað í Ríkisútvarpið, og fór þess á leit að upptökunum yrði hliðrað til svo forsætisráðherra gæti komist í hina árlegu Kryddsíld ásamt öðrum kollegum sínum úr stjórnmálunum.
Orðsendingin frá dagskrárstjóranum hér að neðan dæmir sig sjálf og er ekki sannleikanum samkvæmt. Það er hryggilegt að forsvarsmönnum sjálfs Ríkisútvarpsins finnist svona framkoma boðleg. Leiðari blaðsins stendur.“