Mótmælafundurinn á Austurvelli einsleitur: þrír af fimm frá Sósíalistum

Mótmælafundurinn á Austurvelli í gær, sem efnt var til vegna Klaustursmálsins svokallaða, var ekkert sérlega öflugur og þinginu stóð engin ógn af honum, segir fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason.

Hann segir á vefsvæði sínu, Silfur Egils á Eyjunni, að nokkra athygli hafi vakið hversu einsleitur mótmælafundurinn var. Þannig séu þrír ræðumenn af fimm starfandi með Sósíalistaflokki Íslands og skírskotunin hafi því ekki verið sérstaklega víð.

Þá bendir Egill á að kröfur fundarins, sem sendar hafi verið fjölmiðlum eftir á, hafi ekki verið bornar upp á fundinum. Þær eru „dálítið út og suður“ segir Egill, krafa um að „reka“ megi þingmenn og um „endurmenntun allra starfsmanna þingsins“.