Af fréttum má ráða að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi gripið til örþrifaráðs síðdegis föstudaginn 14. desember þegar hann tilkynnti að Mick Mulvaney yrði starfandi liðsstjóri sinn um áramótin þegar John Kelly hershöfðingi hverfur sem stjórnandi í Hvíta húsinu.
Tilkynnt hafði verið að forsetinn ætlaði leiða málið til lykta í samtölum að kvöldi mánudags 17. desember.
Mick Mulvaney gegnir nú þegar tveimur embættum sem fjárlagastjóri forsetans og starfandi forstjóri í skrifstofu sem á að veita neytendum fjármálalega vernd. Trump hefur nú kynnt Mulvaney til sögunnar sem starfandi liðsstjóra sinn.
Trump sagði frá ákvörðun sinni um þetta á Twitter kl. 17.18 föstudaginn 14. desember þegar sagt var í fjölmiðlun hve fáir hefðu áhuga á starfinu. (Á CNN var starfinu líkt við að vera kynnir við afhendingu Oscars-verðlaunanna sem sagt er að enginn vilji taka að sér. Þá sagði Trump á Twitter: „Til að hafa það á hreinu, MARGIR vildu verða liðsstjórar í Hvíta húsinu.“)
Það þykir skrýtið að Trump kynni Mulvaney sem „starfandi“ liðsstjóra, þetta verði til þess að framlengja óvissu sem nýjum liðsstjóra hefði verið sagt að eyða.
Haft er eftir innanbúðarmönnum í Hvíta húsinu að Mulvaney verði til frambúðar en Trump vilji halda í alla þræði og ekki gefa honum að fullu lausan tauminn, hann vilji að Mulvaney muni hver sé raunverulegi liðsstjórinn: Enginn skuli haga sér eins og hershöfðinginn John Kelly sem þóttist geta stjórnað hverjir fengu fund með forsetanum.
Einmitt af þessari ástæðu vildu ýmsir sem nefndir voru til sögunnar ekki starfið eða þeir fengu það ekki: Þeir hefðu krafist breytinga sem Trump er andvígur.
Háttsettur embættismaður sem talaði við fréttamenn í Hvíta húsinu sagði: „Það eru engin tímamörk.“ Þegar hann var spurður hvers vegna Mulvaney væri sagður „starfandi“ var svarið: „Vegna þess að forsetinn vill það.“
Mulvaney, 51 árs, er fyrrverandi fulltrúadeildarþingmaður frá Suður-Karólínu. Sagt er að hann hafi hörkuna, tengslin við þingið og pólitíska leikni sem Trump þurfi á að halda þegar hann berst fyrir endurkjöri sínu, gegn óvinveittri fulltrúadeild og hættu á að verða stefnt fyrir lögbrot af þinginu á grundvelli rannsóknarinnar undir stjórn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara.
Sagt er að vel fari á með þeim, í augum Trumps er það lykilatriði. Mulvaney er einn sárafárra í stjórn forsetans sem fer á golfvöllinn með honum. Innanbúðarmaður sagði að hann væri góður golfari: „Trump kann að meta það.“
Í The Washington Post sagði: „Mulvaney á auðvelt með samskipti við Trump, hann fer oft með stórar skýringamyndir og litrík spjöld í forsetaskrifstofuna til að útskýra fjárlagastefnuna, segja embættismenn stjórnarinnar.“
Heimild: Axios. Tekið af vardberg.is og birt með leyfi.