Eftir Jóhannes Björn:
Það kallast „svartur svanur” þegar mjög óvæntur atburður leikur fjármálamarkaðina grátt. Gjaldþrot Lehman Brothers árið 2008 (en fyrirtækið var stofnsett 1850 og var því eitt elsta sinnar tegundar í heiminum) var gott dæmi um svartan svan. Lehman setti ekki hagkerfið á hliðina, til þess þurfti miklu meira að koma til, en gjaldþrotið sýndi svo ekki fór á milli mála að heildarskuldir kerfisins voru óviðráðanlegar.
Efnahagslægðin sem hófst á haustdögum 2008 var óvenjuleg að því leyti að bankakerfið sjálft og sumt ríkasta fólks heimsins var við það að tapa gífurlegum upphæðum. Það var líklega ástæðan á bak við þá ákvörðun að fara ekki, eins og venjulega við svipaðar aðstæður, í stórfelldar afskriftir skulda. Seðlabankar stærstu hagkerfanna fundu upp „magnaukningu” — sem er virðulegra en að kalla hlutina réttum nöfnum og tala um hráa peningaprentun — og ríkasta fólki heims og bönkum var bjargað. En vegna þess að allt nýtt fjármagn fer í umferð í formi skulda, þá tóku ríkiskassar (fólkið) á sig allan skuldabaggann eftir krókaleiðum.
Raunverulega hefur aðeins tvennt gerst síðan 2008 — ofurríkt fólk hefur orðið miklu ríkara og skuldirnar í hagkerfi margra landa hafa farið til skýjanna. Bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Bank for International Settlement segja að 12 – 15% fyrirtækja á Vesturlöndum standi ekki undir sér og reddi málunum með endalausum lántökum. Ódýrir peningar eru oft eins og ópíum. Bandarísk fyrirtæki sem ekki stunda lánastarfsemi eða fjármálaþjónustu slógu öll fyrri met í júní með skuldasöfnun upp á $6,3 trilljónir. Skuldirnar í kínverska hagkerfinu eru allt að því jafn óskiljanlegar og draugaborgir landsins, en samkvæmt ABC eru 64 milljónir auðra íbúða í landinu.
Því skal þó spáð hér að næsti svarti svanur hefji sig til flugs frá Ítalíu. Bankar landsins liggja með vanskilalán upp á €224 milljarða og Ponzi aðferðirnar til að halda skútunni á siglingu hafa verið skrautlegar. Höfum í huga að Ítölum fækkar og meðalaldur er að hækka, sem er ekki beint til þess fallið að hressa upp á hagvöxtinn
Ítalski seðlabankinn hefur með umboði Evrópubankans keypt €360 milljarða af ítölskum ríkisskuldabréfum síðan svokölluð magnaukning Evrópubankans hófst fyrir alvöru í mars 2015. En það er ekki til nein eilífðarvél og þessi magnaukning Evrópubankans er á síðustu metrunum, en Ítalía þarf á næsta ári að gefa út skuldabréf upp á €275 milljarða (og meira ef ríkið verður rekið með auknu tapi). Það eru engir kaupendur í sjónmáli nema vextir hækki verulega. Ítalska hagkerfið þolir heldur ekki að borga miklu hærri vexti heldur en hagkerfi ríkjanna sem það keppir við.
Peningaflóttinn frá Ítalíu er stöðugur og útlendingar hafa tekið €69 milljarða út úr hagkerfinu bara síðan í maí, en á sama tíma hrannast peningarnir upp í þýska seðlabankanum. Það vinnur með Ítölum að þeir eru ekki smáríki eins og Grikkland, land sem þýskir og franskir bankar hafa eyðilagt, og þeir geta haft í hótunum um að t.d. taka upp sína gömlu mynt og borga skuldasúpuna með henni.
Höfundur er rithöfundur og hefur skrifað um efnahagsmál um árabil.