Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og Vestmannaeyingur, hefur áhyggjur af persónulegum og illvígum ágreiningi sem kraumar í bænum vegna nokkurra deilumála og hvetur Eyjamenn til þess að virða hvern annan þótt fólk greini á.
Í pistli sem birtist í gær á Eyjar.net, segir Páll:
„Páfinn í Róm gerði umburðarlyndi, eða öllu heldur umburðarleysi, að meginstefi í jólaávarpi sínu. Hann hvatti til “…bróðernis fólks með ólík sjónarmið sem getur þó virt og hlýtt hvert á annað“.
Og mér varð hugsað til okkar hér í Eyjum.
Margir vinir mínir kannast við þessa þulu mína um vanda þess og vegsemd að vera Vestmannaeyingur:
Það eru sérstök forréttindi að eiga æsku sína, uppvöxt og fullorðinsár á þessum stað og með því fólki sem hér býr. Hæfilegur fjöldi til að “flestir þekki flesta“ og hið sérstaka og þétta eyjarsamfélag leiðir af sér nálægð og samstöðu í gleði og sorg sem á sér tæpast hliðstæðu.
Um þetta mætti rifja upp mörg fögur dæmi að fornu og nýju. Ég læt nægja að nefna æðrulaus viðbögð samfélagsins í heild við þeim háska sem steðjaði að í gosinu 1973; samstöðuna við uppbyggingu bæjarins að því loknu; samúð og mannúð sem samfélagið hefur sýnt í gegnum aldirnar gagnvart þeim sem hafa átt um sárt að binda – og síðan á hinn bóginn hina fölskvalausu sameiginlegu gleði sem fólk upplifir t.d. við velgengni Eyjamanna á íþróttasviðinu eða góðan árangur þeirra á öðrum vettvangi.
Allt þetta og miklu fleira gerir það eftirsóknarvert og gott að lifa og búa í samfélagi eins og okkar þar sem nálægðin er svona mikil – því langoftast er hún falleg og góð.
En það er þó ein skuggahlið á þessari nálægð – eða rúllugjald sem við þurfum að greiða fyrir hana: Við eigum oft afar erfitt með að leysa úr ágreiningsmálum án þess að gera þau persónuleg. Og með því að ágreiningurinn verður fremur persónulegur en málefnalegur þá verður hann líka illvígari og langvinnari en ella. Mér finnst því miður að þetta hafi gengið úr nokkru hófi hjá okkur síðustu misserin.
Skiptar skoðanir um allskonar málefni, t.d. tengd yfirtöku bæjarins á rekstri Herjólfs og framboðsmál í síðustu bæjarstjórnarkosningum, hafa leitt af sér furðu mikla heift hjá annars dagfarsprúðu fólki. Ég hitti æ fleiri hér í Eyjum sem ofbýður sú illmælgi og hrakyrði um náungann sem þetta hefur leitt af sér. Sjálfur man ég ekki til að svona rammt hafi kveðið að þessu áður. Það þarf ekki marga einstaklinga til að tala með þessum hætti til að það spilli talsvert andrúmsloftinu í bænum.
Nú mælist ég til þess í fyllstu auðmýkt að við látum nýtt ár – nýtt upphaf – verða okkur tilefni og hvatningu til að láta af þessum ósið. Ágætt viðmið í þessum efnum er að segja helst ekkert um náungann sem við treystum okkur ekki til að segja við hann. Það er engin ástæða til að tala illa um fólk þótt við séum ekki sammála skoðunum þess. Sýnum hvert öðru virðingu þótt okkur greini á um einhver málefni.
Ef okkur tækist þetta yrði enn betra að búa hér í Eyjum – og mannlífið enn skemmtilegra!“