Samherjamál Seðlabankans hefur verið mikið til umfjöllunar um langt skeið, ekki síst undanfarnar vikur þar sem dregið hefur verulega til tíðinda með harðorðu áliti umboðsmanns, erindi bankaráðs Seðlabankans til forsætisráðherra og tveimur opnum fundum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Flestum ber orðið saman um að stjórnsýsla Seðlabankans í málum sem varða gjaldeyriseftirlit bankans hafi verið í ólestri, enda hafa ríkissaksóknari og/eða dómstólar staðfest það með sýknun eða niðurfellingu mála sem frá eftirlitinu komu. Þó er það svo, að enn finnast ýmsir sem trúa því sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur stundum gefið í skyn, sem er að Samherji megi hrósa happi; félagið og stjórnendur þess hafi sloppið á einhvers konar lagaklúðri og tækniatriðum.
Staðreyndirnar eru bara allt aðrar.
Málið snerist um þrennt:
- Skil á gjaldeyri til landsins
- Karfaverð (milliverðlagning)
- Hvort stjórn erlendra fyrirtækja hafi í reynd verið á Íslandi (og fyrirtækin þ.a.l. átt að skila gjaldeyri sínum til landsins)
Fyrstu tvö atriðin er það sem húsleitarbeiðni Seðlabankans snerist um. Útreikningur Seðlabankans á karfaverði var rangur, en bankinn hafði ekki reiknað meðaltal rétt út. Þegar réttri aðferð var beitt kom í ljós að ekki var munur á karfaverði Samherja og annarra aðila. Dómstólar staðfestu ranga útreikninga vorið 2012 og fyrrum framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins gerði það í tölvupósti í ágúst 2017 og núverandi framkvæmdastjóri gerði það fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í síðustu viku. Dómstólar töldu hins vegar rétt að gefa Seðlabankanum svigrúm til að rannsaka málið áfram og sögðu því ekki tímabært að taka á málsástæðum Samherja.
Tvennt af ofangreindu á uppruna sinn úr skattarétti, þ.e. milliverðlagning og raunveruleg stjórn. Þegar sérstakur saksóknari lauk málinu af sinni hálfu, að hluta til vegna skorts á gildum reglum, sendi hann því málið til skattrannsóknarstjóra. Skattrannsóknarstjóri skoðaði málið og öll málsgögn og taldi enga ástæðu til að halda áfram með það. Ef eitthvað hefði verið hæft í ásökunum um karfaverð eða að erlend félög væru í reynd rekin frá Íslandi, þá hefði hann haldið áfram með málið. Afstaða hans um að gera það ekki þýðir því að ekki var fótur fyrir þeim ásökunum.
Skattrannsóknarstjóri hefur aldrei verið feiminn við að höfða mál.
Skil umfram skyldu
Varðandi þriðja atriðið sem eingöngu á við um gjaldeyrislög, þ.e. skil á gjaldeyri, þá gat sérstakur saksóknari þess sérstaklega í bréfi sínu til Seðlabankans að Samherji hefði gætt þess af kostgæfni að skila gjaldeyri til landsins. Hefði mátt ætla að það væru skýr skilaboð til bankans. Á bls. 3 í greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands segir bankaráðið að um það sé ekki deilt að Samherji og dótturfélög hefðu skilað gjaldeyri til landsins umfram skilaskyldu. Var þar enginn fyrirvari um gildi reglnanna.
Íslensk lögfræði – og raunar lögfræði víðast hvar – er þannig uppbyggð að leysa ber úr álitaefni í sérstakri röð. Fyrst er byrjað að skoða hvort einhverjir formlegir annmarkar séu á máli sem leiða þá þegar til þess að óþarfi sé að skoða aðra fleti málsins. Séu fleiri en einn formlegur annmarki á málinu þá er jafnframt leyst úr þeim í ákveðinni röð. Sé fallið á fyrsta prófi er óþarfi að skoða aðra annmarka og þannig koll af kolli.
Þannig leysti héraðsdómur Reykjavíkur úr málinu um stjórnvaldssektina sem Seðlabankinn lagði á Samherja. Það tók Hæstarétt ekki nema tvo daga að staðfesta þá niðurstöðu. Seðlabankinn féll semsé á fyrsta prófinu og því taldi dómstóllinn óþarfi að fara í gegnum aðrar málsástæður Samherja.
Kröfugerð Seðlabankans fyrir húsleit (sem Arnór Sighvatsson umsækjandi um stöðu seðlabankastjóra nú skrifaði undir) byggði á 26 skjölum. 23 skjölin voru útprentanir úr Creditinfo um íslensk félög í samstæðu Samherja. Ekkert skjal varðaði erlend dótturfélög sem beiðnin náði þó til.
Eitt skjalið var meðalgengi gjaldmiðla á þriggja mánaða tímabili. Annað skjal voru upplýsingar úr tollskýrslum sem nýttust Samherja til að sýna fram á ranga útreikninga Seðlabankans. Lokaskjalið var bréf Samherja til Verðlagsstofu skiptaverðs sem útskýrði hvernig laun sjómanna væru reiknuð út.
Það þarf ekki lögfræðipróf til að sjá að þessi gögn sönnuðu engin brot.
Boltinn er hjá forsætisráðherra
Vafalaust má deila á héraðsdóm um vandvirkni á sínum tíma en honum til vorkunnar treysti hann því að Seðlabanki Íslands færi með rétt mál. Það er skiljanlegt, m.a. í ljósi þess að í einkamálalögunum er ákvæði sem segir að treysta beri opinberum skjölum, þau séu rétt þar til sýnt er fram á annað.
Seðlabankastjóri hefur nú ítrekað, í ræðu og rituðu máli, sagt að hann hafi ekki haft rökstuddan grun fyrir húsleitinni þrátt fyrir að slíkt sé áskilið í sakamálalögum.
Sjá einnig: Húsleit Seðlabankans hjá Samherja og tengdum félögum var lögleysa.
Því þarf ekki að undra að forsætisráðherra hafi málið enn til meðferðar og hyggist jafnvel grípa til aðgerða. Umboðsmaður Alþingis hefur jafnframt sagst bíða með frekari viðbrögð og aðgerðir þar til ákvörðun forsætisráðherrans liggur fyrir.
Sjálf hefur Katrín Jakobsdóttir staðfest að hún líti málið mjög alvarlegum augum. Skýrt hefur verið frá að nýjar upplýsingar séu komnar fram um náið samband Seðlabankans og Ríkisútvarpsins um málið; tilurð þess og fréttaflutning daginn sem húsleitir fóru fram fyrir rúmum sjö árum. Umboðsmaður hefur fengið trúnaðarupplýsingar í skjóli nafnleyndar sem varpa skýrara ljósi á þau mál öll.
Samherjamáli Seðlabankans er því hvergi nærri lokið. En kastljósið beinist nú að bankanum, en ekki Þorsteini Má og hans fólki fyrir norðan. Þau eru laus allra mála, eins og ótal aðilar hafa staðfest opinberlega — síðast seðlabankastjóri sjálfur fyrir þingnefnd í beinni útsendingu.
Og það er ekki, af því að þau hafi sloppið á einhverjum tækniatriðum…