Niðurstöður áreiðanleikakönnunar sýna versnandi stöðu Wow

Mikil og neikvæð fjölmiðlaumræða um flugfélagið Wow og óvissa sem skapast hefur um rekstrarhæfi félagsins gerir það að verkum að fólk heldur að sér höndum við farmiðakaup fram í tímann. Það hefur aftur áhrif á lausafjárstöðu félagsins.

ViðskiptaMogginn segir í dag að drög að áreiðan­leika­könn­un á rekstri WOW, sem lágu fyr­ir í gær, sýni að rekst­ur­inn sé í al­gjör­um járn­um. Á sama tíma hafi reynst erfitt að fá kröfu­hafa fé­lags­ins til þess að gefa eft­ir í þeirri viðleitni að greiða fyr­ir söl­unni.

Nú er talið líklegt að verði af sölunni á annað borð, muni seljendur fá lítið sem ekkert gagngjald á móti í hlutabréfum í Icelandair.

ViðskiptaMogginn segir að hlut­hafa­fund­ur Icelanda­ir Group, sem haldinn verður í fyrra­málið, verði sögulegur. Þar muni stjórn fé­lags­ins annaðhvort leggja til að til­laga um kaup fé­lags­ins á öllu hluta­fé WOW air verði samþykkt eða henni synjað. End­an­leg afstaða stjórn­ar­inn­ar mun ráðast á stjórn­ar­fundi í kvöld. Heim­ild­ir ViðskiptaMogg­ans herma að ekki komi til greina að fresta ákvörðun um kaup­in. Niðurstaða verði að liggja fyr­ir á morg­un.

Í Fréttablaðinu er hins vegar rætt um að fundinum kunni að verða frestað:

„Það kæmi ekki á óvart, og í raun mjög skiljanlegt, ef hluthafafundi Icelandair yrði frestað á föstudaginn enda hafa hluthafar litlar upplýsingar undir höndum varðandi stöðu WOW air,“ segir Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Hagfræðideild Landsbankans.