Mikil og neikvæð fjölmiðlaumræða um flugfélagið Wow og óvissa sem skapast hefur um rekstrarhæfi félagsins gerir það að verkum að fólk heldur að sér höndum við farmiðakaup fram í tímann. Það hefur aftur áhrif á lausafjárstöðu félagsins.
ViðskiptaMogginn segir í dag að drög að áreiðanleikakönnun á rekstri WOW, sem lágu fyrir í gær, sýni að reksturinn sé í algjörum járnum. Á sama tíma hafi reynst erfitt að fá kröfuhafa félagsins til þess að gefa eftir í þeirri viðleitni að greiða fyrir sölunni.
Nú er talið líklegt að verði af sölunni á annað borð, muni seljendur fá lítið sem ekkert gagngjald á móti í hlutabréfum í Icelandair.
ViðskiptaMogginn segir að hluthafafundur Icelandair Group, sem haldinn verður í fyrramálið, verði sögulegur. Þar muni stjórn félagsins annaðhvort leggja til að tillaga um kaup félagsins á öllu hlutafé WOW air verði samþykkt eða henni synjað. Endanleg afstaða stjórnarinnar mun ráðast á stjórnarfundi í kvöld. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að ekki komi til greina að fresta ákvörðun um kaupin. Niðurstaða verði að liggja fyrir á morgun.
Í Fréttablaðinu er hins vegar rætt um að fundinum kunni að verða frestað:
„Það kæmi ekki á óvart, og í raun mjög skiljanlegt, ef hluthafafundi Icelandair yrði frestað á föstudaginn enda hafa hluthafar litlar upplýsingar undir höndum varðandi stöðu WOW air,“ segir Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Hagfræðideild Landsbankans.