Málefni Ágústs Ólafs Ágústssonar þingmanns Samfylkingarinnar er ekki hið eina sem komið hefur inn á borð flokksins, þar sem kvartað er yfir kynferðislegri áreitni og óviðeigandi framgöngu kjörinna fulltrúa.
Afhúpun Viljans leiðir í ljós, að fyrir hálfu þriðja ári barst þáverandi formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, ábending um óviðeigandi framkomu þingmannsins Helga Hjörvar í garð kvenna.
Nefnd voru nokkur tilvik. Á þeim tíma var Helgi í framboði til formanns Samfylkingarinnar en Árni Páll hafði tilkynnt að hann sæktist ekki eftir endurkjöri. Þetta hefur Viljinn eftir öruggum heimildum. Málið var tekið alvarlega á vettvangi forystu flokksins og var leitað staðfestinga á frásögnunum frá þeim konum sem nefndar voru til sögunnar og faglegrar ráðgjafar um hvernig með skyldi fara.
Árni Páll og Kristján Guy Burgess, þáverandi framkvæmdastjóri, funduðu með Helga Hjörvar, sem hafnaði ásökunum alfarið og taldi aðeins að um eðlileg samskipti kynjanna hefði verið að ræða.
Var hvattur til að hætta
Árni Páll mun hafa komið því skýrt á framfæri við Helga að hann teldi að hann þyrfti að bregðast við, ætti að draga yfirstandandi formannsframboð til baka og þyrfti í framhaldinu almennt að meta stöðu sína.
Við því varð Helgi Hjörvar ekki, en litlu síðar hætti Árni Páll sem formaður flokksins og lét af afskiptum af stjórnmálum. Helgi Hjörvar sat á þingi til ársins 2016, en það ár var hann í 2. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, en náði ekki kjöri þar sem Samfylkingin galt afhroð í kosningunum og missti stóran hluta þingmanna sinna.
Viljinn hefur heimildir fyrir því innan Samfylkingarinnar, að mál Helga Hjörvar hafi orðið til þess að flokkurinn lét verða af því að koma á laggirnar formlegu ferli fyrir ábendingar af þessum toga. Til varð trúnaðarnefnd flokksins, sem Guðrún Ögmundsdóttir veitir forystu, en hún veitti Ágústi Ólafi sem kunnugt er, formlega áminningu í liðinni viku.
Árni Páll tjáði sig óbeint um málið í útvarpsviðtali í Ríkisútvarpinu árið 2017, þegar MeToo-byltingin reis sem hæst, þar sem hann sagðist sem formaður hafa þurft að hafa afskipti af málefnum kjörins fulltrúa flokksins vegna ásakana kvenna um óviðeigandi hegðun, en Helgi var ekki nafngreindur í því viðtali.