Nú er í tísku að skíra ekki börn. Ég hef áhyggjur af því

Á alþjóðadegi barnsins er vert á minna á þessi orð Jesú: Leyfið börnunum að koma til mín. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur á móti mér. Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja… englar þeirra á himni njóta jafnan návistar míns himneska föður.

Þetta skrifaði Karl Sigurbjörnsson, fv. biskup yfir Íslandi í gær á alþjóðadegi barnsins, þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir þeirri þróun að færri foreldrar kjósa að skíra börn sín en áður var.

„Nú er í tísku að skíra ekki börn. Ég hef áhyggjur af því, áhyggjur og sorg. Skírnin er samhengi sem hefur borið uppi kynslóðir þessa lands í þúsund ár, órofin keðja kynslóðanna. Ef einn hlekkurinn slitnar þá brestur svo margt annað. Sú trú sem skírnin tjáir hefur verið akkeri umhyggjunnar, þó að talsmenn hennar hafi oft brugðist í sögu og samtíð, þá hefur hún samt sem áður verið eins konar innbyggt leiðréttingarforrit mannúðar og miskunnsemi, kærleika og vonar og skapað siðmenningu, getið af sér ódauðlega list, og margt það besta sem menning og samfélag okkar á og nýtur,“ segir Karl.

Og biskupinn heldur áfram:

„Skírnin er eins og bólusetning til að styrkja ónæmiskerfið gegn af-mennskunni, sem alltaf og alls staðar sækir að. Barnsskírnin er tákn og áminning um að það er ekki það sem við afrekum og öflum, sem skiptir máli, heldur það sem við erum, sem börn, varnalaus í veröldinni, en elskuð af Guði. Í því er fólgin forvörn og leiðsögn í lífinu og það gefur trausta viðspyrnu þegar komið er í þrot, þegar eigin máttur og vilji bregst, og ekkert nema æðri máttur fær hjálpað. Foreldrar sem vilja barni sínu allt hið besta ættu að gæta þess að það fari ekki á mis við skírnina!“