Ný lög um landgræðslu taka gildi: Stefnt að aukinni þátttöku almennings

Alþingi samþykkti á síðasta starfsdegi fyrir jólafrí ný lög um landgræðslu. Um heildarendurskoðun er að ræða á eldri lögum frá 1965. 

Verulegar breytingar hafa orðið á löggjöf og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála síðan eldri lögin voru sett. Hér á landi hafa tekið gildi ný lög um náttúruvernd, skipulagsmál og um mat á umhverfisáhrifum. Auk þess hafa alþjóðasamningar á borð við loftslagssamninginn, samning um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og samning um varnir gegn eyðimerkurmyndun, sem allir eru á vegum Sameinuðu þjóðanna, tekið gildi, að því er segir í frétt frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Meðal helstu breytinga sem ný lög fela í sér er að verulega er skerpt á markmiðum laganna, m.a. varðandi vernd og sjálfbæra nýtingu jarðvegs og gróðurs og endurheimt vistkerfa. Nafni Landgræðslu ríkisins er breytt í Landgræðslan. 

Lögin kveða á um gerð landgræðsluáætlunar fyrir landið allt. Jafnframt að vinna skuli svæðisáætlanir í samráði við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem eiga að draga fram sérstöðu og áherslur eftir landshlutum. Lögin hafa að markmiði að auka þátttöku almennings og hagsmunaaðila í landgræðslustarfinu og í því skyni getur Landgræðslan hvatt til og stutt við verkefni á vegum einstaklinga, félagasamtaka, sveitarfélaga, fyrirtækja eða annarra. 

Sjálfbær landnýting er leiðarstef í nýjum lögum og er kveðið á um reglulegt mat á ástandi lands og árangri landgræðslustarfsins, að sett skuli viðmið um sjálfbæra landnýtingu og að unnin skuli áætlun um úrbætur þar sem landnýting er ekki sjálfbær. Samhliða þessum breytingum eru gerðar breytingar á skilgreiningu ítölu sem mun nú taka mið af leiðbeiningum og viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu. Einnig er í nýjum landgræðslulögum ákvæði um að sýna skuli sérstaka aðgát til að lágmarka rask á gróðri og jarðvegi og að leitast skuli við að bæta fyrir það með endurheimt sambærilegra vistkerfa. 

Lög um varnir gegn landbroti voru við þessa heildarendurskoðun sameinuð lögum um landgræðslu. 

Sérstakur kafli er um hlutverk Landgræðslunnar við umsjón lands vegna landgræðslu; annars vegar lands í eigu ríkisins og hins vegar lands í einkaeigu sem ríkið hefur umsjón með samkvæmt samkomulagi við eiganda. Lögin miða að því að einfalda þá umsýslu og skilgreina betur markmiðin með umsjón ríkisins.