Hundar eru orðnir miðaldra við tveggja ára aldur, en ný rannsókn sýnir að það sé á misskilningi byggt að ár í aldri hunds jafngildi sjö árum í öldrun manna. Frá þessu segir Daily Mail á netinu.
Rannsakendur í Kaliforníu sögðu að þótt hundarnir eldist mjög fljótt fyrstu tvö ár ævinnar, þá eldist þeir mun hægar eftir það, m.v. mannfólkið.
Vísindamenn, sem rannsökuðu 104 Labrador-hunda á aldrinum fjögurra vikna til 16 ára, komust einnig að því að þegar hundar eru þriggja ára, eru þeir svipaðir og fimmtugir menn.
Rannsóknin, sem enn á þó eftir að rýna, beindist að breytingum á erfðaefninu DNA, en á því verða breytingar eftir því sem dýrið eldist. Þessar breytingar eru línulegar í mannlegum frumum, en tveggja ára hundar eru orðnir eins og manneskja komin yfir fertugt, en ekki á fermingaraldri miðað við það sem áður var talið. Mælingarnar voru bornar saman við mælingar á 300 manns.
Á móti hægist á öldrun í hundum með tímanum, sem þýðir að tíu ára Labrador-hundur er á aldri við 68 ára manneskju.