Nýr forsætisráðherra Bretlands tekur við í dag, eftir að hafa sigrað með yfirburðum í formannskjöri í Breska íhaldsflokknum í gær. Boris Johnson, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, tekur við af Theresu May, sem sagði af sér formennsku í Breska íhaldsflokknum, og þar með forsætisráðherraembættinu. Henni mistókst að fá stuðning breska þingsins til að framfylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 2016 (BREXIT), en meirihluti kjósenda kusu með því að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið (ESB). Hann hefur heitið því að klára að hrinda BREXIT í framkvæmd eigi síðar en 31. október nk.
Hver er þessi Boris Johnson?
Alexander Boris de Pfeffel Johnson, oftast kallaður Boris, er sonur breskra efri-millistéttarhjóna úr röðum frjálslyndra hægri manna. Hann er fæddur 19. júní 1964 í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í New York og er með tvöfaldan ríkisborgararétt. Boris er breskur að uppruna en á jafnframt ættir að rekja til tyrknesks múslima í föðurætt og litháískra gyðinga í móðurætt, en er kristinn meðlimur í bresku biskupakirkjunni. Boris er elstur fjögurra systkina, gekk í Eton og lærði síðar heimspeki og klassísk fræði fornaldar í Oxford. Hann var vinsæll og varð forseti Oxfordfélagsins árið 1986. Hann byrjaði feril sinn sem hægri sinnaður blaðamaður og hóf snemma að gagnrýna ESB. Boris varð aðstoðarritstjóri Telegraph árið 1994 og einn af ritstjórum Spectator árið 1999 til ársins 2005.

Vinsæll borgarstjóri Lundúna
Boris varð þingmaður Breska íhaldsflokksins árið 2001 og fylgdi flokkslínunni til að byrja með, en varð fljótlega framsækinn í persónu- og viðskiptafrelsismálum. Hann er aðdáandi Winston Churchill, eins þekktasta forsætisráðherra í sögu Bretlands. Boris varð borgarstjóri Lundúna árið 2008 og hlaut endurkjör árið 2012. Líklega er Boris þekktastur í því embætti fyrir að hafa náð að draga úr glæpum, reyna að gera London að reiðhjólaborg, sjálfvirknivæða miðasölukerfi neðanjarðarlestanna og styðja samkynhneigða og minnihlutahópa. En hann var gagnrýndur fyrir kostnaðarsöm verkefni og að eigna sér heiðurinn af vinnu forvera síns. Hann var vinsæll borgarstjóri en hætti árið 2015 þegar hann varð aftur þingmaður íhaldsmanna. Boris var mjög áberandi í baráttunni fyrir því að Bretland yfirgæfi ESB árið 2016, en það ár skipaði May hann utanríkisráðherra. Hann gegndi því embætti í tvö ár, eða þar til hann sagði af sér vegna andstöðu sinnar við hugmyndir May um það hvernig Bretland skyldi yfirgefa ESB.
Óþekkur og óvenjulegur
Boris er umdeildur í Bretlandi. Stuðningsmenn segja hann frjálslyndan, fyndinn, skemmtilegan og uppátækjasaman, en andstæðingar gagnrýna hann fyrir skort á mannasiðum, elítisma, frændhygli, ósannsögli og leti. Sumum finnst hann hafa óreiðukennt og trúðslegt yfirbragð, t.d. vegna furðulegra uppátækja, óstundvísi og af því að hárið á honum er eins og hænurass í vindi. Aðrir telja hann viðkunnanlegan, traustan og vel gefinn þrátt fyrir krumpað útlit og frjálslega framkomu. Boris þykir óhefðbundinn stjórnmálamaður í Bretlandi, en óvenjulegt er að svo „óþekkir“ menn komist þar til metorða. Hann er tvífráskilinn og talinn eiga sex börn, þar af fjögur innan hjónabands og eitt utan, en sagt er að hann eigi jafnvel eitt til viðbótar. Nýlega skildi hann við eiginkonu sína til 25 ára, Marinu Wheeler, og tók saman við Carrie Symonds, sem er honum 24 árum yngri. Hann hefur viðurkennt að hafa einhverntímann notað kannabis og kókaín. Ýmsir aðrir skandalar fylgja honum frá fyrri störfum og af ferli hans sem stjórnmálamanns, en einnig það virðist ekki hafa haft teljandi áhrif á ímynd hans og velgengni.

Hinn breski Trump, segir Trump
Það að Boris verði nú forsætisráðherra Breta hefur valdið mörgum áhyggjum, þar sem talið er að hann muni vilja leiða Bretland út úr ESB með því að „rífa það burt eins og heftiplástur“, en forveri hans May, hafði gert ítrekaðar árangurslausar tilraunir til að ná mjúkri lendingu með samningum. Bandaríkjaforseti, Donald Trump, sem mörgum þykir eins og fíll í postulínsbúð í innan- og utanríkismálum, hefur talað hlýlega um Boris, jafnvel talað um „breskan Trump“. Hann væntir ef til vill nánara samstarfs á milli ríkjanna í ljósi þess að nú muni Bretland yfirgefa ESB á hnefanum. Þetta veldur einnig áhyggjum, en Bandaríkjaforseti er líkt og Boris, afar umdeildur stjórnmálamaður. Boris hét því að sameina Breta í framkvæmd hins risavaxna BREXIT-verkefnis sem framundan er, í baráttuvilja og bjartsýni, og leggja Jeremy Corbyn, leiðtoga Breska verkamannaflokksins, að velli í leiðinni. Aðeins tíminn mun leiða í ljós hvernig til tekst.