„Kosturinn við áramótaskaup Ríkisútvarpsins nú er að það setti nýjan botn með afgerandi hætti. Ganga má út frá því og jafnvel vona að það taki nokkurn tíma að slá þetta met,“ segir í leiðara Morgunblaðsins í dag.
„Engar líkur standa þó til þess að oflátungarnir sem stjórna þessari stofnun og þykjast eiga hana læri nokkuð. Þar á bæ kunna menn sjálfsagt sitthvað, en að skammast sín er þá ekki eitt af því,“ segir þar ennfremur.
Ritstjórinn Davíð Oddsson á langan og glæstan stjórnmálaferil að baki, en á yngri árum vill svo skemmtilega til, að hann var einn umsjónarmanna skemmtiþáttarins Matthildar í Ríkisútvarpinu. Hann er ekki hrifinn af gríninu sem Ríkisútvarpið bauð landsmönnum upp á á gamlárskvöld.
„Víst er að enginn algildur mælikvarði er á skemmtigildi en um þetta „skaup“ á þó hið fornkveðna við að það hefði verið fyndnara hefði verið húmor í því. Mest kom á óvart hvað skaupið var ljótt, illgjarnt og hve lágt var lagst og hverra erinda var gengið. Það er nokkurt afrek að halda svo illa á að það var orðið allt að því óviðeigandi að þessi hópur settist allsgáður í dómarasæti yfir klausturmunkum eftir það sem á undan gekk,“ segir ennfremur í leiðaranum.