„Þetta er sprottið af fyrirsögn á viðtali sem birtist í DV um helgina, en það er oftúlkun. Ég hef ekki sagt mig úr VG, þannig að það er á misskilningi byggt“, segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Vinstri grænna (VG) í samtali við Viljann.
Náttfari Hringbrautar varpaði því fram sem staðreynd að Ögmundur væri hættur í VG á vef sínum í fyrradag, en sá sem hann ritar hafði dregið þá ályktun af viðtali sem birtist við Ögmund í DV um síðustu helgi.
Viljinn hafði því samband við Ögmund sem vildi ekki kannast við að svo væri. Náttfari segir m.a.:
„Það ætti að þykja saga til næsta bæjar að Ögmundur Jónssson væri gengin úr sínum gamla flokki Vinstri grænum og vandaði gömlum félögum sínum þar ekki kveðjur í stóru viðtali sem birtist við hann í DV um helgina. En þessi staðreynd hefur ekki fengið neina athygli í fjölmiðlum.“
Vill ekki gera mikið úr fundum með Sósíalistaflokknum
Að auki kom fram hjá Náttfara að Ögmundur hefði sést á fundum með Gunnari Smára Egilssyni, formanni Sósíalistaflokks Íslands. Hann vildi ekki að gert yrði mikið úr því, og kvaðst vera þar á eigin vegum.
„Ég hef efnt til funda um aðskijanleg málefni, þ. á m. um kvótann. Það geri ég utan flokka og á vettvangi þar sem ég hef verið að hasla mér völl sjálfur, án samstarfs við stjórnmálaflokka. Markmiðið með því er að örva umræði í þjóðfélaginu um mál sem á því brenna, en ekki síst um málefni sem mér finnst að ættu að brenna á okkur.
Þar á meðal eru að sjálfsögðu kvótamálin, en yfirskrift fundanna sem ég hef boðað til um þau, er gerum Ísland heilt á ný, kvótann heim. Þar er hugsunin sú er að kvótakerfið í þeirri mynd sem við þekkjum það, hafi brotið okkar samfélag, leitt til byggðaröskunar og misréttis – til að gera samfélagið heilt á ný. Það yrði botnað með að fá kvótann heim í byggðarlögin á ný, og að eignarréttur þjóðarinnar á sjávarauðlindinni verði á borði en ekki bara í orði.“
Gagnrýninn á ríkisstjórnarsamstarfið en ánægður með umhverfismálin
Spurður hvort hann sé sáttur við sinn flokk segir Ögmundur:
„Ég horfi ekki meira til hans en stjórnmálanna almennt. Hvað varðar ríkisstjórnarsamstarfið hef ég gagnrýnt margt, t.d. í orkumálum, mér var á móti skapi að gangast undir markaðsvæðingu ESB, mér finnst ríkisstjórnin ekki standa sig vel í matvælaöryggi og jarðakaupamálunum. Síðan er ég gagnrýninn a stefnu hennar í utanríkismálum, eins og hernaðaruppyggingu á nýjan leik,“ og kveðst hann vera að „taka efnislega afstöðu til málefnanna eins og þau koma fram hverju sinni.“
Aðspurður kvaðst Ögmundur mjög sáttur við miklar áherslur VG á umhverfismálin. „Ég vil friða landið sem frekast má og verja okkur fyrir stóriðju og virkjanastefnu sem einkennt hefur s.l. áratugi. Ég hef haslað mér völl utan stofnanakerfis stjórnmálaflokkanna og horfi meira til málefna en flokka“.