Ólafur og Karl Gauti voru komnir óformlega yfir í Miðflokkinn fyrir löngu

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason sem reknir voru úr Flokki fólksins voru löngu komnir yfir í Miðflokkinn, en þó ekki með formlegum hætti.

Þetta fullyrti Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á Útvarpi Sögu í dag, en hún hringdi óvænt inn í símatíma stöðvarinnar sem Pétur Gunnlaugsson hafði umsjón með.

Var greinilegt að hörð gagnrýni hlustenda Útvarps Sögu á þá ráðstöfun að reka Karl Gauta og Ólaf úr flokknum, hafði borist Ingu til eyrna, því hún sagðist hringja inn til að leiðrétta margvíslegan misskilning sem væri uppi í umræðunni um þessi mál.

Inga segir að þeir sem gagnrýni brottrekstur Ólafs og Karls Gauta viti ekki nema hálfa söguna, því mjög mikið hafi verið búið að ganga á og mikið reynt við að halda „þessu saman“, eins og hún orðaði það, en hún viðurkennir að það hefði verið besti kosturinn.

„Þeir voru í raun bara löngu komnir yfir í Miðflokkinn, en eins og ég segi var mikið búið að vera í gangi og þingflokkurinn í rauninni orðinn óstarfhæfur í kjölfar Klaustursmálsins og því var þetta niðurstaðan, við erum ekkert að bera allt upp á torg sem gerist innan flokksins“, sagði Inga ennfremur í símatímanum.