Ólína gagnrýnir ábyrgðarleysi brotlegrar Þingvallanefndar

Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fv. alþingismaður.

Opinberir starfsmenn og/eða umsækjendur um opinber störf halda áfram að fá tugmilljónagreiðslur úr vasa skattgreiðenda fyrir það eitt að sækja um eða yfirgefa störf. Þar má nefna umsækjendur um dómarastörf í Landsrétti, ríkislögreglustjórinn fyrir að hætta og núna síðast, umsækjandi um starf þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir hlaut sáttabætur upp á tæpar 20 milljónir fyrir að hafa sótt um starf þjóðgarðsvarðar. Hún var ekki ráðin þar sem að Þingvallanefnd mistókst að fara að lögum við skipunina, og það þrátt fyrir aðkeypta ráðgjöf við verkefnið, eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum.

Þingvallanefnd heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Þingvallanefnd er skipuð sjö mönnum, kosnum af Alþingi og fer nefndin með yfirstjórn Þingvallaþjóðgarðs. Þingvallanefnd er stjórnsýslunefnd og heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Þingvallanefnd kjörin á Alþingi 8. febrúar 2018:

Aðalmenn: Formaður Ari Trausti Guðmundsson.  Varaformaður Vilhjálmur Árnason. Guðmundur Andri Thorsson, Páll Magnússon, Karl Gauti Hjaltason, Hanna Katrín Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir.

Varamenn: Njáll Trausti Friðbertsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Þingvallanefnd ræður þjóðgarðsvörð, sem annast daglegan rekstur og ræður annað starfsfólk.

Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður er formaður Þingvallanefndar.

Þingvallanefnd stikkfrí og skattgreiðendur borga

Ljóst er orðið að brotið var á Ólínu í ráðningarferlinu, en komast hefði mátt hjá þessum kostnaði ef kjörnir fulltúar sem sitja í meirihluta Þingvallanefndar auk formanns nefndarinnar, hefðu gengist við ábyrgð, að því er Ólína segir á facebook í dag:

„Kæru vinir. Í gær varð opinber niðurstaða sem náðst hefur varðandi bótagreiðslu til mín vegna ráðningar í starf þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum fyrir rúmu ári. Um er að ræða eins og hálfs árs laun þjóðgarðsvarðar – eftir skatta er upphæðin sem fellur í minn hlut um 13 mkr. Hjá þessum fjárútlátum hefði mátt komast ef eðlilegar starfsaðferðir hefðu verið viðhafðar í ráðningarferlinu, sem var því miður ekki.

Ég átti þess kost að taka málið fyrir dóm en ákvað að láta staðar numið og taka sáttatilboði ríkislögmanns. Ríkið leggur alltaf ískalt mat á stöðu sína og ég þykist vita að ef ríkið hefði talið sig eiga góða von um að hrinda af sér málsókninni hefðu þessar bætur ekki staðið til boða.

Þingvallanefnd sem er brotlegi aðilinn í málinu mun þó ekki borga brúsann. Það gera skattgreiðendur. Í fréttum hefur komið fram að fjárgreiðslan verði ekki dregin af nefndinni, heldur muni hún koma beint úr ríkiskassanum.

Þessi reikningur hefði aldrei komið til hefðu þeir kjörnu fulltrúar sem skipa meirihluta Þingvallanefndar vandað verk sín betur og/eða gengist við ábyrgð sinni þegar ljóst varð að þeir höfðu brotið lög.

Það á ekki að vera ódýrt fyrir hið opinbera að brjóta á einstaklingi – en það á auðvitað ekki að gerast. Hjá öllu þessu hefði mátt komast … jafnvel bara ein afsökunarbeiðni hefði getað lækkað þennan reikning töluvert. Og hefði formaður nefndarinnar séð sóma sinn í að axla ábyrgð og segja af sér formennsku eftir að kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði s.l. vor að brotið hefði verið á mér, þá hefði sú gjörð jafnvel afmáð þennan reikning með öllu. Hvorugt gerðist.

Hvað um það – nú legg ég þetta mál að baki og reyni að gleyma því. Síðustu mánuðir hafa tekið á og nú vona ég að málinu sé lokið.

Einari þjóðgarðsverði óska ég velfarnaðar í hans störfum.“