„Ómerkilega“ ráðist að íbúum Dalvíkurbyggðar í Kveik

Frá Fiskideginum mikla á Dalvík árið 2017. Mynd/Dalvíkurbyggð

„Sjónvarpsþátturinn [Kveikur] réðist ómerkilega að íbúum Dalvíkurbyggðar með því að tengja Fiskidaginn mikla við meint afbrot Samherja,“ segir Bjarni Theódór Bjarnason, f.v. bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, í facebook-færslu í kvöld, þar sem hann fer mikinn vegna Kveiks-umfjöllunar Ríkisútvarpsins um viðskipti Samherja í Namibíu. Hann segir nú þórðargleði ríkja hjá mörgum sem nú „komi út úr greni sínu, og sakar Samfylkinguna um hræsni.

Bjarni Theódór Bjarnason.

Hann segir að íbúar, félagasamtök, sveitarfélag og fyrirtæki í Dalvíkurbyggð leggi nótt við dag til að taka sem best á móti tugþúsunda gesta Fiskidagsins mikla ár hvert.

„Vanvirðingin gagnvart dugnaði fólksins er ljótur leikur. Ríkisfjölmiðillinn hefur að vísu aldrei haft sérstakan áhuga á Fiskideginum mikla svo ég muni eftir og man ég ýmislegt.“

RÚV leiddi dómstól götunnar í sjö ár gegn Samherja

Bjarni Theódór minnist þess þegar RÚV réðst „fantalega“ og í beinni útsendingu þann 27. mars 2012 inn í Samherja.

„Samherji vann mál sitt gagnvart Seðlabankanum fyrir dómstólum. Dómstóll götunnar, sem ríkisfjölmiðillinn hafði leitt í rúm sjö ár, beið mikinn hnekki. Nú hefur leynimakki ríkisfjölmiðilsins og Seðlabankans verið vísað til lögreglurannsóknar.“

Hann segir viðbrögðin við nýjasta Kveiks-þætti RÚV séu að mörgu leyti svipuð og á vordögum árið 2012.

„Nú er talað um að Ísland sé spillingarbæli, hækka þurfi skatta, leggja niður fiskveiðistjórnunarkerfið, frysta eignir og ýmislegt annað sem lætur blóð renna. Samfylkingarflokkurinn er sérlega iðinn við að berja sér á brjóst. Hann var það líka 2012.“

Samfylkingin hefur enn ekki skilað tugmilljóna styrkjum

Bjarni Theódór skýtur föstum skotum á Samfylkinguna fyrir sýndarmennsku fyrir að ætla að skila 1,6 milljón króna styrk frá Samherja:

„Árið 2006 þáði Samfylkingin ógnarháa styrki. Þar af voru 73 milljónir frá lögaðilum tengdum fjórum eignafjölskyldum:

25 milljónir frá félögum tengdum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni
16 milljónir tengdar Björgólfsfeðgum
14 milljónir frá félögum tengdum Ólafi Ólafssyni
14 milljónir frá félögum tengdum Bakkabræðrunum Ágústi og Lýði Guðmundssonum

Hræsni Samfylkingar er fyrirlitleg. Ríkisfjölmiðillin, sem er í pólitík, hefur ekkert fjallað um þetta. Enn minna hefur verið fjallað um að annar flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, skilaði öllum sambærilegum styrkjum og Samfylkingin hefur haldið eftir. Hvernig ætli standi á því?“

Yfirburðir hlutdrægs RÚV hættulegir vestrænu þjóðskipulagi

RÚV fær að heyra það í færslu Bjarna Theódórs, fyrir „þjónkun við Samfylkingu og pólitíska rétthugsun.“

„KrakkaRÚV er gott dæmi um pólitíska og sósíalíska rétthugsun til handa börnum. Mjög margir kvarta vegna stjórnmálaaflsins RÚV sem segir fréttir sem henta skoðunum þeirra sem vinna hjá stofnuninni. Fréttamat og áherslur RÚV eru oft gagnrýndar. Ekkert er gert með það.“

Hann segir aðskilnað RÚV og ríkissjóðs liggja í augum uppi.

„Ríkisfyrirtæki sem rekur útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar á gervihnattaöld er tímaskekkja. Einhver segir kannski að ríkisfjölmiðil þurfi til að fletta ofan af hlutum. Það er algjör vitleysa. Í nútímaþjóðfélagi sem byggir á gegnsæi, lýðræði, réttarríki og vestrænni stjórnarskrá þarf ekki ríkisfjölmiðil. Slíkur miðill með yfirburði yfir aðra miðla er í raun hættulegur vestrænu þjóðskipulagi.“

Látið að því liggja að sekt sé sönnuð í sjónvarpsþætti

Að lokum segir hann að ásakanir um glæpsamlegt athæfi komi fram í Kveiks-þættinum, og látið að því liggja að sekt sé sönnuð, alveg eins og hafi verið gert í gjaldeyrismáli Seðlabankans.

„Það er hvorki mitt né RÚV, stjórnmálahreyfingar, að meta hvort að glæpur hafi verið framinn eða ekki. Ísland er réttarríki og það eru til stofnanir og stjórnvöld sem bregðast við og rannsaka málin og hefur sú rannsókn verið hafin. Svo kemur bara í ljós hvernig málið fer. Spyrjum að leikslokum.“