Orðbragð og útreikningar Kára Stefánssyni ekki sæmandi

Dr. Kári Stefánsson prófessor og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

„Útreikningar mannsins eru því hreint og klárt rugl en ég læt mér samt ekki sæma að kalla hann rugludall. Það er orðbragð sem aðrir telja brúkhæft í opinberri umræðu. Sama á við um landráðabrigslin.“, segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, í greininni „Heiðarleiki og ruglaðir útreikningar“ sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag.

Sigurgeir B. Kristgeirsson.

Í henni gagnrýnir hann Kára Stefánsson, lækni og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, harðlega vegna „fráleitra“ fullyrðinga og „gífuryrða“ hans undanfarið um veiðar og sölu íslenskra útgerðarmanna á makríl.

Í grein, undir fyrirsögninni „Landráð?“ sakaði Kári útgerðarmenn um að hlunnfara sjómenn og sveitarfélög, stela undan skatti með því að selja eigin félögum erlendis makríl á undirverði og stunda peningaþvætti. Áður hafði Kári birt grein í Fréttablaðinu þar sem hann kallaði Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki, rugludall. Tilefnið var ný lög um vandaða starfshætti, í vísindum, sem Kári segir að Vilhjálmur standi fyrir. Í þeim skorti skilgreiningu á því hvað teljist vera „heiðarleg vinnubrögð“ í vísindum, og vísaði hann í sjálfseftirlit og ritrýni vísindamanna í því samhengi.

Hvorki heiðarleg né vísindaleg vinnubrögð

Sigurgeir segir: „Vel færi á því að greinarhöfundur hefði sjálfur að leiðarljósi heiðarleika í anda sjálfseftirlits vísindasamfélagsins við þessi skrif sín og sérfróða menn til að ritrýna skrif sín. Hann gefur sér forsendur eða kann ekki að reikna út frá staðreyndum en hikar samt ekki við að draga gífuryrtar ályktanir af öllu saman. Slík vinnubrögð teljast vonandi hvorki sérlega heiðarleg né vísindaleg – og um það erum við Kári væntanlega sammála.“

Hann fer yfir það hvernig með gagnaöflun og „nákvæmari heimavinnu“ sé einfalt að komast að því að fullyrðingar Kára standist engan veginn, en við nánari athugun sjáist að Kári hafi gefið sér á bilinu 50%-80% afurðaverð en geti átt sér stoð í raunveruleikanum. Skemmdur fiskur og afskurður lendi í bræðslu, sem sé afleidd stærð, og raunverulegt söluverðmæti sé langt undir því sem Kári gefur sér m.v. þá 300 milljarða sem hann fullyrðir að útgerðir hafi „stolið“, en nánar er hægt að lesa um forsendurnar í grein Fréttablaðsins í dag.

Erfir hvorki fljótfærni né flumbrugang ef menn bæta ráð sitt

Að lokum kveðst Sigurgeir nýlega hafa hlýtt á lestur Stefáns Jónssonar, föður Kára, upp úr bók sinni, „Að breyta fjalli“:

„Hún er snilldarverk að frásögn og stíl og einkar hlý saga bernskuára höfundar. Ég má til með að vísa til bókarinnar þegar ég segi að ég erfi hvorki fljótfærni né flumbrugang í skrifum Kára frekar en afi hans erfði við Stefán, föður Kára, þegar hann (Stefán) vildi hjálpa til og skaut jarpa gæðingshryssu frá Árnanesi, sem nágranninn átti, í misgripum fyrir jarpan afsláttarklár sem faðir hans hafði keypt til að lóga fyrir heimilið.

Öllum verður eitthvað á í lífinu en flestum er gefið að bæta ráð sitt.“