Orkumálin: „Íslenska þjóðin þurfi að fá að vita hvað hún er að gera“

Ragnar Árnason, hagfræðingur og einn höfunda skýrslu Orkunnar okkar. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

„Ég tel vera mikla skynsemi í stefnu Evrópusambandsins (ESB), að einkaaðilar reki orkuframleiðslu, fyrir ESB í heild sinni. Þetta gæti komið illa við Ísland sem land og þjóð, og brotið í bága við okkar ímynd af Íslandi í framtíðinni. Einkaframleiðslustefna og frjálsmarkaðsstefna í orkumálum, gæti leitt til þess að þorrinn af orku á Íslandi færi til Evrópu og fólkið með,“ sagði Ragnar Árnason, hagfræðingur, en Viljinn ræddi stuttlega við hann á fundinum þar sem skýrsla Orkunnar okkar,  „Áhrif inngöngu Íslands í Orkusamband ESB“, var kynnt sl. föstudag.

Nokkrir skýrsluhöfundar sátu í panel fundarins. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

Lesa mátti úr skýrslunni, að samkeppnisforskot Íslands í sölu á raforku gæti glatast, þar eð samþykkt á orkupakka þrjú myndi leiða til hækkunar á raforkuverði, en skýrslan gerir jafnframt ráð fyrir að óumflýjanlegt sé fyrir Ísland að tengjast orkuneti Evrópu með sæstreng. Það sé m.a. vegna stefnu ESB í loftslagsmálum, en sambandið vilji nú kaupa umhverfisvæna orku í stórum stíl til að standa við markmið sín.

Er þetta í grunninn hugmyndafræðileg barátta?

„Já, að talsverðu leyti, það er talsverð hagfræði og verkfræði í þessu, og skoðanamunur um það hvernig Ísland við viljum hafa í framtíðinni. Samanber það sem menn hafa sagt um náttúruvernd. Það er að segja, ef það verður frjáls einkaframleiðsla á orku og við Íslendingar verðum með kerfi með ESB, þá er líklegt að það verði vindmylla á öllum fjallstindum og eftir öllum fjallseggjum, og orkan færi beint til Evrópu. Kannski færi það í taugarnar á mörgum Íslendingum.“

En er það ekki smekksatriði, sumum finnst mannvirki t.d. vera einkenni framfara?

„Ég tek undir það, þetta útaf fyrir sig er smekksatriði. Það sem skýrslan gerir, er að segja, ef við tökum þetta skref, þá lítur framtíðin svona út. Er þetta framtíðin sem við viljum? Ég tel að íslenska þjóðin þurfi að fá að vita, hvað hún er að gera.

Telurðu að sú umræða hafi verið tekin?

„Þetta hefur ekki verið nægilega vel rætt, ég held að það sé stór partur af umræðunni. Ég tel það vera skyldu stjórnmálamanna að útskýra hlutina fyrir þjóðinni á heiðarlegan hátt og láta fólkið síðan velja. Það er mín skoðun að ef þjóðin áttaði sig á þessu, í líkingu við það sem fram kemur í þessari skýrslu, þá mundi minnihluti þjóðarinnar vilja þetta. En það er bara mín skoðun, það sem ég held.“

Er EES-samningurinn kominn að þolmörkum með þessu máli?

„Ég held að gæði þessa EES-samnings séu mjög ofmetin og ýkt. Í grundvallaratriðum vildum við bara fá tollalækkanir. Við fengum dálitlar tollalækkanir, ekki að fullu. Á móti höfum við þurft að gangast undir miklu meiri jarðarmen af ýmsu tagi, en við bjuggumst við þá. Í millitíðinni hafa tollar í heiminum almennt lækkað, þannig að okkar tollaávinningur af EES-samningnum er orðinn minni, vegna þess að við hefðum fengið þetta hvort sem var, með öðrum samningum. Ég held að það væri ástæða til þess fyrir íslenska þjóð að fara af hlutlægni og vandvirkni yfir það, hver okkar ávinningur sé af þessum EES-samningi, miðað við allt það sem honum fylgir.“ 

Ávinningur af EES-samningnum minnki með BREXIT

Ragnar telur jafnframt að ávinningur Íslands af EES-samningnum minnki enn frekar, gangi Bretland samningslaust úr ESB í haust, þar sem mikil viðskipti eigi sér stað á milli landanna. Þátttaka Bretlands í ESB hafi ýtt mjög undir EES samning Íslands, á sínum tíma. Hann telur ekki að úrsögn Bretlands úr ESB minnki líkur á lagningu sæstrengs á milli landanna, þar eð Bretland verði áfram tengt orkuneti Evrópu.

Ragnar telur að sæstrengur sé óhagkvæmur eins og er, m.a. vegna orkutaps á amk. þúsund kílómetra flutningsleið, en það kom fram á fundinum. Sæstrengur frá Íslandi til Evrópu yrði sá lengsti í heimi og á köflum, sá dýpsti. „Ég tel þó að hann sé alltaf að verða hagkvæmari, og ég held ESB vilji fá hann þó hann borgi sig ekki, þannig að ESB myndi styrkja hann nægilega mikið til þess að hann borgaði sig. Ef sæstrengur verður á annað borð lagður, eða nokkrir slíkir, þá mun orkan fara þar um.“