Ótrúleg aðsókn er að kvikmyndinni Avengers: Endgame um allan heim. Í gær var ljóst að myndin setti nýtt heimsmet í aðsókn á veraldarvísu, með því að tekjur af miðasölu fóru í 1,2 milljarð bandaríkjadala, en á Íslandi fóru 84% allra íslenskra bíógesta á myndina — sem verður að teljast fáheyrt.
Alls sóttu 30.400 manns kvikmyndina hér á landi fyrstu 5 dagana. Myndin var frumsýnd víða um land og hópaðist fólk á öllum aldri á myndina og mynduðust biðraðir fyrir framan salina, allt að tveimur klukkutímum áður en sýningar hófust, samkvæmt upplýsingum frá Sambíóunum.
Tekjur af miðasölu hér á landi reyndust vera rúmlega 44 milljónir króna og sló hún út 5 daga met Star Wars: the Force Awakens, sem sett var um jólin 2015.
Árni Samúelsson í Sambíóunum telur ekki ólíklegt að Avengers endi sem stærsta mynd ársins á Íslandi, en bendir þó á að tvær kvikmyndir gætu gert atlögu að þeim titli, The Lion King , sem frumsýnd verður í júlí og Star Wars – The Rise of Skywalker, sem frumsýnd verður um jólin.