Ótrúlega skiptar skoðanir um viðtalið við Jón Baldvin

Hægt er að fullyrða að þjóðin hafi setið límd fyrir framan sjónvarpstækin þegar Jón Baldvin Hannibalsson mætti í beina útsendingu í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu og svaraði þeim þungu ásökunum sem á hann hafa verið bornar af fjölda kvenna undanfarið.

Ef marka má umræður á samskiptamiðlum, sýnist sitt hverjum um viðtalið. Bæði framgöngu Jóns Baldvins sjálfs sem og spyrilsins, Fanneyju Birnu Jónsdóttur.

Þannig segir Bjarni Dagur Jónsson fjölmiðlamaður að Fanney hafi reynt að taka Jón Baldvin af lífi með viðtalinu, en það hafi ekki tekist.

„Fanneyju Birnu í Silfrinu mistókst að taka Jón Baldvin af lífi. Útkoman var sú að augljóst var að hún var hlutdræg og afleitur spyrjandi. Dapurt og óvandað sjónvarpsefni. Hefur RUV enga sjálfsvirðingu?“ segir hann.

Diljá Ámundadóttir varaborgarfulltrúi Viðreisnar, segist hafa verið stressuð fyrirfram fyrir viðtalið:

„Jón Baldvin Hannibalsson, ég verð að viðurkenna að ég var örlítið stressuð þegar ég vissi að þú hefðir pláss í sjónvarpi allra landsmanna til að bera af þér þungar sakir í dag. Ég var hrædd um að þú gætir náð að sannfæra áhorfendur með e-um hætti um sakleysi þitt. Ég veit ekki hvort þú veist það sjálfur en þú varst rétt í þessu að tikka í öll þau box yfir hluti sem sekur ofbeldismaður gerir og segir í þeim aðstæðum sem þú varst í.

Þú gerðir þig að fórnarlambi, þú reyndir að slá konuna sem tók viðtalið við þig út af laginu með því að spyrja hana ítrekað hvort hún væri ekki búin að kynna sér málið, þú sagðir nafnið hennar ítrekað með eins condesending tón og hægt er og við sáum skýrt alla kvenfyrirlitninguna sem í þér býr, þú slóst upp vandræðalega langsóttum samsæriskenningum og margt meira til. Þetta kom bara alls ekki nógu vel út fyrir þig.

Fanney Birna, frænka mín, öll mín virðing og stolt til þín. Þú negldir þetta erfiða viðtal. Eins og við var að búast. Og rúmlega það,“ segir Diljá.

Svala Jónsdóttir var hins vegar ekki ánægð með þá ákvörðun að bjóða Jóni Baldvin í þáttinn:

„Frekar ömurlegt að veita margásökuðum kynferðisbrotamanni drottningarviðtal til að „svara fyrir sig“ og það sama dag og rúv birtir sjónvarpsviðtal við nasista. Verulega sorglegt,“ segir hún.

Og lögreglumaðurinn fyrrverandi, Gunnar Andri Sigtryggsson, segir Fanneyju Birnu hafa sýnt furðulega framkomu í þættinum, þar sem hún hafi fremur reynt að knýja fram sekt en bjóða upp á viðtal:

„Óskapnaður er mikill í hennar framkomu sem reyndar varð viðmælanda hennar til tekna ef eitthvað var. Heimur kvenna er að koma í ljós í mörgum myndum. Eitthvað sem býr undir í þessum ofstækisleiðum kvenna gegn karlkyninu . Kona segir sögu og sögunni er trúað hvernig sem karlmaður sem á „hlut“ ber af sér þá er eins og það sé lögmál að hann sé að ljúga ! Konan situr eftir með „sannleikann“ þótt að hann sé tóm lygi . Hvar endar þessi vitleysa nema með hörmungum,“ segir hann.