Óttast komandi verðbólguskot: Margir færa sig yfir í óverðtryggð lán

Íslendingar virðast vera að búa sig undir vaxandi verðbólgu. Viljinn þekkir mörg dæmi þess að fólk sé að endurfjármagna húsnæðislán sín og skipta yfir í óverðtryggð lán, enda þótt það þýði hærri greiðslubyrði á mánuði. Ávinningurinn af því að höfuðstóll lánanna rjúki ekki upp í verðbólguskoti er talinn vega slíkt upp og miklu meira en það.

Morgunblaðið greinir frá því í dag, að gríðarleg aukn­ing sé á nýj­um óverðtryggðum út­lán­um heim­il­anna með veði í íbúðar­hús­næði sam­kvæmt töl­um Seðlabank­ans. Hafa þau aldrei verið hærri, um 10,3 millj­arðar, og juk­ust um tæplega fjörtíu prósent milli mánaða, sem er mjög mikil breyting.

Svo hröð er þessi þróun, að ný húsnæðislán í október skiptust þannig að óverðtryggð voru 79% og verðtryggð 21%. Þetta er skýrt merki um yfirfærslu í lánum fólks af ótta við aukna verðbólgu.

Morgunblaðið hefur eftir sérfræðingi, að fólk óttist verðbólgu, lækk­andi gengi og mikla óvissu í kjara­samn­ing­um sem verða laus­ir um ára­mót.