Stjórnvöld ríkja í Evrópu ættu að beita sér fyrir hertum reglum um móttöku flóttamanna til þess að bregðast við uppgangi öfgahreyfinga á hægri kanti stjórnmálanna, segir Hillary Clinton, fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna og frambjóðandi Demókrata í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum.
Clinton sagði að Evrópuríkin verði að ná böndum á flóttamannavandanum í viðtali við breska dagblaðið Guardian. Mikil aukning á komu flóttamanna valdi vaxandi óánægju í mörgum löndum og auðvelt sé að kynda undir henni.
Clinton telur að flóttamannavandinn sé kjósendum ofarlega í huga og ekki sé lengur hægt að loka augunum fyrir því. Þetta kunni að hafa ráðið miklu um óvænt úrslit í bandarísku forsetakosningunum fyrir tveimur árum þegar Donald Trump bar sigur úr býtum og eins í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi þegar samþykkt var — þvert á flestar spár sérfræðinga — að ganga úr Evrópusambandinu.
Þegar ríki Evrópu tóku að hrista af sér neikvæð áhrif efnahagskreppunnar á árunum eftir 2008, varð sprenging í komu flóttamanna til álfunnar. Hörmungar af völdum borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi skiptu þar mestu og gríðarlegur fjöldi fólks þurfti að flýja heimkynni sín og leita að skjóli annars staðar.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fór fremst fyrir þeim leiðtogum Evrópuríkja sem vildu galopna landamærin fyrir flóttamönnum og tóku Þjóðarverjar á móti ríflega einni milljón flóttamanna á árinu 2015. Margir luku lofsorði á þessa gestrisni á alþjóðavísu, en heima fyrir hefur Merkel og flokkur hennar þurft að gjalda hennar dýru verði.
Jafnframt er talið ljóst að þar með hafi skapast frjór jarðvegur fyrir öfgahreyfingar á borð við AFD, Alternative für Deutschland.
„Ég get ekki annað en dáðst að þeirri manngæsku og mildi sem margir þjóðarleiðtogar beittu sér fyrir, einkum Angela Merkel, en ég held að mér sé óhætt að segja að Evrópa sé búin að gera sitt í þessum efnum og verði nú að senda skýr skilaboð: Við getum ekki haldið áfram óbreyttri stefnu, því ef ekki verður tekist á við flóttamannavandann mun hann halda áfram að valda straumhvörfum í hinu pólitíska landslagi,“ segir Clinton.