„Það sem kemur ritstjóranum mest á óvart í uppgjöri ársins 2018 er sú staðreynd að hæsti hiti þess skuli hafa mælst á Patreksfirði. Slíku hefði hann aldrei spáð. En lærir svo lengi sem lifir. Hæsti hiti ársins á landinu mældist á Patreksfirði 29.júlí, 24,7 stig. Hitabylgjan á landinu þennan dag er hér útnefnd sem „veður ársins“.“
Þetta skrifar Trausti Jónsson veðurfræðingur á veðursíðu sína, Hungurdiska, þar sem hann gerir upp veðrið á árinu sem er nýliðið og rifjar upp forvitnilegar staðreyndir um veðrið sem við höfum svo gaman af að tala um.
Trausti segir að það hafi tvisvar gerst áður, að hæsti hiti ársins á landinu hafi mælst á Vestfjörðum, 1943 og 1962.
„Fyrra tilvikið, 1943, er nær örugglega rangt – hitt (1962) gæti staðist en er samt með nokkrum ólíkindum. Patreksfjarðarmetið nú er hins vegar ekki vafa undirorpið – næsthæsti hiti ársins (24,5 stig) mældist sama dag í Tálknafirði og á Hafnarmelum.
Fleiri met voru slegin 29.júlí, hiti mældist 17.8 stig í 925 hPa yfir Keflavíkurflugvelli – það er nýtt júlímet. Í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 mældist hiti 18,6 stig í fletinum. Hitamælingar í 925 hPa eru ekki aðgengilegar í gagnagrunni Veðurstofunnar nema aftur til 1993. Hiti í 850 hPa-fletinum mældist 13,6 stig þann 29.júlí, það næstmesta í júlí frá upphafi samfelldra mælinga 1952. Hærri tala, 13,9 stig mældist þann 23.júlí 1952 en hefur verið talin vafasöm (og er það) – en kannski var þá um „flís“ af hlýju lofti að ræða – rétt eins og nú.
Hér er rétt að geta þess að annað mánaðarhitamet var slegið í 850 hPa-fletinum á árinu. Á jóladag mældist hiti 8,0 stig – 0,6 stigum meira en gamla metið frá 12.desember 1990. Tvær mælingar í 500 hPa í júlí 2018 komust inn á topp-tíu (í 5. og 8.sæti). Febrúarhitamet var slegið uppi í 70 hPa (18 km) og 50 hPa (20 km) – nærri 5 stigum hærra en eldri met,“ segir Trausti.