Viðskipti voru stöðvuð með bréf í Icelandair Group í Kauphöll Íslands í morgun að kröfu Fjármálaeftirlitsins. Icelandair hefur nú tilkynnt að ólíklegt sé að unnt verði að staðfesta kaupin á flugfélaginu WOW air á hluthafafundi sem boðaður er næstkomandi föstudag.
Viljinn skýrði frá því fyrir helgi að vaxandi efasemdir væru uppi um að hægt yrði að klára kaupin á fundinum. Það þýðir vaxandi óvissu um málið.
Þá er og orðið ljóst að samningsstaða Skúla Mogensen, eiganda WOW, fer nánast dagversnandi, en kaupin voru gerð með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar.
Sjá: Skúli ekki með góð spil á hendi. Tíminn vinnur ekki með WOW air.
Vaxandi efasemdir um að samruninn gangi eftir
Athygli vekur, að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, vék að mögulegum samruna félaganna í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina með þessum orðum:
„Erfiðleikar flugfélagsins WOW eru þekktir og vaxandi umræða og efasemdir virðast vera um það að samruni þess og Flugleiða gangi eftir. Afleiðingar þessa, ef til kæmi, eru óljósar, þótt óþarft sé að gefa sér að þær yrðu bylmingshögg sem vankaði þjóðarbúskapinn.“