Óvissan eykst: Þarf að fresta hluthafafundi Icelandair? Samningsstaða Skúla þröng

Vaxandi óvissa er uppi um hvort tekst að taka ákvörðun um kaup Icelandair á flugfélaginu WOW á hluthafafundi fyrrnefnda félagsins sem boðaður hefur verið í næstu viku. Stórir hluthafar í Icelandair telja sig ekki hafa fengið neinar viðhlítandi upplýsingar um stöðu WOW og þá liggur ekki fyrir hvort Samkeppniseftirlitið nær að ljúka sinni rannsókn á málinu fyrir fund. Staða WOW er afar erfið og óvissan sem er uppi hjálpar félaginu ekki þessa dagana. Forstjórinn Skúli Mogensen hefur ekki mörg tromp á hendi, eins og staðan er nú.

Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að hluthafafundinum kunni að verða frestað. Blaðið hefur talað við fulltrúa margra af stærstu hluthöfum Icelandair og þeir telja sig ekki geta tekið afstöðu til málsins fyrr en frekari upplýsingar fást um raunverulega fjárhagsstöðu WOW air, endanlegt kaupverð og samlegðaráhrif af kaupunum. Þetta ætti allt að koma fram í áreiðanleikakönnun sem nú stendur yfir.

Fari svo að fresta þurfi hluthafafundi, þarf mögulega að boða til hans aftur með hefðbundnum fyrirvara samkvæmt samþykktum Icelandair, sem mun vera þrjár vikur. Sérfræðingur sem Viljinn ræddi við, sagðist þó telja að mögulega væri hægt að gera undantekningu í þessu tilfelli.

Hagfræðideild Landsbankans sendi frá sér greiningu um kaup Icelandair á WOW á þriðjudag og hefur Viljinn hana undir höndum. Þar segir að samruninn yrði afar flókinn, raunar er talað um flóknustu sameiningu Íslandssögunnar, en ætti að skila verulegum rekstrarbata, að því gefnu að leiðakerfi félaganna verði endurskipulagt, kostnaður tekinn niður og framboð minnkað. Og miðaverð hækki.

Skúli ekki með góð spil á hendi

Athygli vekur, að hagfræðideildin segir litlar sem engar líkur séu á því að félögin verði rekin hvort í sínu lagi:

„Að reka WOW sem „lággjaldaarm“ Icelandair er möguleg sviðsmynd, en myndi áfram fela í sér þörf á endurskipulagningu leiðakerfisins og minnkun á framboði. Reynslan sýnir misgóðan árangur af slíkum lággjaldadótturfélögum.“

Viðmælendur Viljans benda á að tíminn vinni alls ekki með WOW air. Nú liggi fyrir og hafi væntanlega verið kynnt fyrir Samkeppniseftirlitinu, að WOW air fari í þrot, verði ekki af þessum viðskiptum. Þar með sé Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi WOW air, nánast ekki lengur með nein spil á hendi gagnvart yfirferð á áreiðanleikakönnuninni og þurfi því sem næst að taka því sem býðst í viðræðunum við Icelandair.

„Það er ekki eins og hann geti staðið upp frá samningaborðinu, skellt hurðum og sagst ætla að fara eitthvað annað,“ sagði áhrifamaður í lífeyrissjóði, sem Viljinn talaði við.

Flestir sem Viljinn ræddi við, vona hins vegar að málin nái að skýrast fyrir hluthafafundinn í næstu viku og málið verði klárað. „Ísland má alls ekki við þeim risaskelli sem gjaldþrot WOW yrði á þessum tímapunkti. Ekki heldur hluthafar Icelandair, sem reka til dæmis stærstu hótelkeðju landsins. Það er einfaldlega allt of mikið undir,“ sagði einn viðmælandi Viljans, nú í morgun.