Lögfræðingar sem fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur rætt við segja að Bára Halldórsdóttir hafi gefið færi á lögsókn gegn sér vegna upptakanna sem hún gerði af samtali sex þingmanna á barnum Klaustur 20. nóvember síðastliðinn. Lögfræðingarnir telja að um brot á persónuverndarlögum hafi verið að ræða þegar upptakan var gerð.
Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins. Málið er til einnig skoðunar hjá Persónuvernd í ljósi þess að Bára steig í dag sem í Stundinni og viðurkenndi að hún hefði tekið upp samtöl þingmannanna.
Halldóra Þorsteinsdóttir er einn þeirra lögfræðinga sem fréttastofa RÚV hefur rætt við vegna þess máls. Hún er lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í fjölmiðlarétti. „Já, auðvitað gerir hún það,“ segir Halldóra þegar hún er spurð hvort hvort Bára hafi skapað sér hættu á að fá á sig lögsókn vegna viðtalsins sem hún veitti Stundinni í dag. Hún segir að almennt ríki vernd yfir heimildarmönnum og uppljóstrurum fjölmiðla en hún hafi fyrirgert slíkum rétti með því að stíga fram undir nafni. Stígi uppljóstrar fram geti fjölmiðlarnir ekki lengur verndað heimildamenn sína.
„Grundvallarreglan er sú að öllum er bannað að taka upp samtöl annarra án þeirra vitundar,“ bendir Halldóra á í samtali við fréttastofu. Um það sé ákvæði í persónuverndarlögum og hegningalögum. Friðhelgi einkalífs sé einnig tryggð í stjórnarskrá.
Samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd þá eru nýjustu vendingar málsins nú til skoðunar hjá stofnuninni og ótímabært að segja af eða á um hvort það verði tekið formlega til rannsóknar. Málið sé á viðkvæmu stigi, að því er fram kom í frétt RÚV.