Pétur Gunnarsson jarðsunginn: Þakklátur fyrir lífið og fólkið sitt

Gríðarlegur fjöldi var samankominn í Háteigskirkju í dag til að minnast Péturs Gunnarssonar blaðamanns sem var borinn til grafar. Sr. Vigfús Bjarni Albertsson jarðsöng, Grímur Atlason flutti einstaklega fallega vinarkveðju, Valdimar og Þorsteinn Einarsson sungu einsöng og Schola Cantorum sungu við undirleik Gunnars Gunnarssonar.

Anna Margrét Ólafsdóttir, eiginkona Péturs, minnist hans í Morgunblaðinu í dag, og rifjar upp að þau hafi ruglað saman reitum eftir vanga­dans á skóla­balli við lagið And I Love Her með Bítl­un­um. „Þetta var í fe­brú­ar 1975 og við Pét­ur ekki orðin 15 ára göm­ul. Ég vil trúa því að það hafi verið til­gang­ur með því að við urðum par svona ung, við átt­um ekki að fá að verða göm­ul sam­an. Sam­band okk­ar varði í tæp 44 ár og fyr­ir það er ég óend­an­lega þakk­lát,“ segir hún.

„Pét­ur var ein­stak­ur maður, hann var minn besti og nán­asti vin­ur. Það var svo gott að leita til hans með allt því hann var svo ráðagóður og hafði oft­ast rétt fyr­ir sér þótt stund­um hafi verið erfitt fyr­ir mig að viður­kenna það. Ég hef fengið alls kon­ar hug­mynd­ir í gegn­um tíðina og það var nán­ast sama hver hug­mynd­in var, hann hvatti mig alltaf áfram og studdi. Þegar ég 31 árs ákvað að fara í leik­skóla­kenn­ara­nám stóð hann eins og klett­ur á bak við mig þótt heim­ilið yrði fyr­ir tekjum­issi og hann þyrfti að taka á sig meiri vinnu.

Þegar ég ákvað að opna leikja­vef fyr­ir börn hjálpaði hann mér með styrk­umsókn­ir og annað sem þurfti til að koma vefn­um á lagg­irn­ar.
Fyr­ir ör­fá­um vik­um eyddi hann með mér góðum tíma í að fara yfir vef­inn og ræða næstu skref. Það verður erfitt að stíga þau án hans.

Það var öll­um mikið áfall þegar Pét­ur veikt­ist í lok sum­ars á síðasta ári og um pásk­ana varð ljóst hvert stefndi. Pét­ur var æðru­laus í veik­ind­um sín­um, sagðist ekki ótt­ast dauðann, hann væri fyrst og fremst þakk­lát­ur fyr­ir lífið og fólkið sitt,“ segir hún.

Fróðari um lög og rétt en margir sem höfðu prógráðuna

Brynjar Níelsson alþingismaður minnist Péturs vinar síns á fésbók í dag, en þeir voru saman í Hlíðaskóla og hafa þekkst frá barnsaldri.

„Öfugt við okkur hin í unglingahópnum var Pétur fróður og vel lesinn og eftir á að hyggja var óskiljanlegt að hann nennti að hanga með okkur. Pétur var skarpgreindur og góður námsmaður. Hann lauk stúdentsprófi frá MR og stofnaði fjölskyldu mjög ungur með Önnu Margréti Ólafsdóttur, sem var ein úr Krónuhópnum. Hugmyndir um langskólanám viku fyrir því merkilega verkefni. Pétur starfaði lengst af sem blaðamaður. Ólíklegt er að margir andmæli þeirri fullyrðingu minni að hann hafi verið með allra bestu blaðamönnum sem við höfum átt. Þar skipti máli hin mikla og almenna þekking sem Pétur bjó yfir. Enginn blaðamaður var betri en Pétur þegar kom að viðkvæmri umfjöllun um lögreglu-og dómsmál. Vegna þekkingar sinnar og innsæis gat hann dregið fram sem skipti máli á hlutlausan og yfirvegaðan hátt. Ég held að Pétur hafi verið fróðari um lög og rétt en margir sem höfðu prófgráðuna,“ segir Brynjar.

Pétur var fyrsti fréttastjóri Fréttablaðsins. Hér er mynd sem blaðið birti af því þegar fyrstu eintökin runnu úr prentsmiðjunni. Til beggja handa eru eigendurnir, feðgarnir Sveinn R. Eyjólfsson og Eyjólfur Sveinsson. Einar Karl Haraldsson ritstjóri og Gunnar Smári Egilsson útgefandi eru við hlið Péturs sem kom til liðs við Fréttablaðið af Mogganum.

Einnig þetta mun líða hjá

Sindri Freysson, skáld og blaðamaður, vann lengi með Pétri. Hann rifjar upp að setningin „Einnig þetta mun líða hjá“ hafi verið skjásvæfa á tölvu Péturs Gunnarssonar á Morgunblaðinu um árabil.

„Setning sem gat átt skírskotun í svo margt og sýndi ágætlega kímnigáfu hans og kannski viðhorf til starfs sem svo sannarlega gat kallað á að missa ekki jafnaðargeðið,“ segir hann. „Pétur hafði mikla nærveru, svipbrigði hans og augntillit sögðu fleira en langt mál og hann bjó yfir ríku skapi sem skein í þegar honum fannst á fagmennsku hallað eða sterkri réttlætiskennd hans var ofboðið. Oftast var Pétur þó algjör ljúflingur, húmoristi sem naut skemmtilegrar sögu eða innskots með hjartanlegum hlátri, og stutt í kaldhæðni sem var þó aldrei beiskju blandin eða rætin. Fagmaður fram í fingurgóma, gerði strangar kröfur til vandaðrar blaðamennsku og kunni sannarlega til verka, einn þeirra kollega sem maður virti mikils og þakkaði fyrir að geta leita til því að hann hafði stálminni sem bjó yfir gríðarlegum fróðleik um menn og málefni.“

Pétur Gunnarsson 1960-2018

Pét­ur Gunn­ars­son fædd­ist í Reykja­vík 18. mars 1960. Hann lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans 23. nóv­em­ber 2018.

For­eldr­ar: Ragn­heiður Ásta Pét­urs­dótt­ir, f. 28. maí 1941, og Gunn­ar Eyþórs­son, f. 23. júní 1940, d. 18. ág­úst 2001. Seinni maður Ragn­heiðar Ástu, fóst­urfaðir Pét­urs, var Jón Múli Árna­son, f. 31. mars 1921, d. 1. apríl 2002. Seinni kona Gunn­ars var Hjör­dís Guðbjarts­dótt­ir, f. 11.10. 1933.

Systkini Pét­urs: Eyþór, f. 9. sept­em­ber 1961, maki er Ell­en Kristjáns­dótt­ir, Birna Guðrún, f. 12. mars 1965, maki Árni Daní­el Júlí­us­son, Sól­veig Anna, f. 29. maí 1975, maki Magnús Sveinn Helga­son. Dæt­ur Jóns Múla, stjúp­syst­ur Pét­urs, eru Hólm­fríður, f. 6. ág­úst 1947, Ragn­heiður Gyða, f. 15. janú­ar 1957, og Oddrún Vala, f. 3. októ­ber 1962.
Pét­ur kvænt­ist æsku­ást­inni, Önnu Mar­gréti Ólafs­dótt­ur leik­skóla­stjóra, 21. júní 1980. For­eldr­ar henn­ar eru Ólaf­ur F. Marinós­son, f. 13. nóv­em­ber 1933, d. 29. sept­em­ber 2010, og Anna­lise Jan­sen, f. 23. apríl 1939.

Pét­ur og Anna Mar­grét eignuðust þrjú börn: 1) Ragn­heiður Ásta, f. 30. nóv­em­ber 1980, maki er Kristján Odd­ur Sæ­björns­son, f. 15. júlí 1979. Börn Ragn­heiðar og Ein­ars Arn­ar Þor­valds­son­ar eru Brynj­ar Bragi, f. 31. des­em­ber 2006, Sól­rún Una, f. 6. mars 2009, og Þor­steinn Flóki, f. 23. októ­ber 2011. Dæt­ur Kristjáns eru Sesselja Fann­ey, f. 24. fe­brú­ar 2007, og Ágústa Birna, f. 27. ág­úst 2009. 2) Anna Lísa, f. 12. janú­ar 1983, maki er Hann­es Pét­ur Jóns­son, f. 14. nóv­em­ber 1982. Börn þeirra eru Ey­dís Anna, f. 29. júní 2009, og Kjart­an Pét­ur, f. 31. októ­ber 2012. 3) Pét­ur Axel, f. 21. ág­úst 1995.

Systkini Önnu Mar­grét­ar eru Sigrún Erla Ólafs­dótt­ir, f. 13. mars 1962, maki er Ágúst Birg­is­son, Guðrún Birna, f. 17. júní 1964, og Brynj­ar Marinó, f. 20. okt. 1974, maki Þórný Þórðardótt­ir.

Pét­ur lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík 1980. Fá­ein ár eft­ir stúd­ents­próf vann hann hjá lög­regl­unni í Reykja­vík en hóf störf sem blaðamaður hjá Morg­un­blaðinu um miðjan ní­unda ára­tug­inn. Pét­ur varð fyrsti frétta­stjóri Frétta­blaðsins við stofn­un þess. Hann var frétta­stjóri á Viðskipta­blaðinu um hríð og starfaði einnig á Frétta­tím­an­um.

Pét­ur stofnaði vef­miðil­inn Eyj­una ásamt Andrési Jónssyni og Jóni Garðari Hreiðarssyni, rit­stýrði henni og ritaði pistla. Hann starfaði fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn og síðar Sam­fylk­ing­una. Síðast starfaði Pét­ur sem rit­stjóri hjá SÁÁ. All­an starfs­fer­il sinn sinnti Pét­ur ráðgjöf fyr­ir fjöl­breytta hópa, m.a. stjórn­mála­fólk og ýmis fé­laga­sam­tök.

Útför Pét­urs fór fram frá Há­teigs­kirkju í dag.

Að leiðarlokum vill ritstjóri Viljans þakka Pétri fyrir einstaka vináttu og trúnað í ríflega tuttugu ár. Guð blessi minningu Péturs Gunnarssonar.