Óánægja Pírata vegna félagsfundarins þar sem meðlimir þingflokks Pírata, ásamt fleirum, sögðu Birgittu Jónsdóttur til syndanna eins og Viljinn hefur áður greint frá hér og hér, hefur náð þeim hæðum að hafin er söfnun undirskrifta á netinu undir yfirskriftinni „Ekki í mínu nafni“. Þegar þessi frétt er birt höfðu 30 manns undirritað hann.
Í yfirlýsingu undirskriftalistans segir:
„Við undirrituð, félagar í Pírötum, hörmum þá atburðarás sem átti sér stað á félagsfundi mánudaginn 15. júlí síðastliðinn. Umræddur fundur var félagsfundur og auglýstur sem slíkur og hvergi í fundarboði kom fram að persónulegt uppgjör milli nokkurra félagsmanna skyldi eiga sér stað.
Þingmenn Pírata og annað valdafólk innan flokksins sem tóku til máls á fundinum fóru offari gegn einum félagsmanni. Sú opinbera aðför, óháð því hvaða stöðu umræddur félagsmaður gegndi áður og hvað kann að hafa farið aðila á milli fyrr, er með öllu ólíðandi. Öllum skal sýnd kurteisi og virðing, sérstaklega þegar rætt er um og/eða talað til ákveðinna einstaklinga.
Framkoma þeirra sem fóru offari á fyrrnefndum fundi er ámælisverð, engum til gagns, og ber að fordæma. Þá skyldi ekki líta hjá stöðu þeirra sem um ræðir, en það traust sem fulltrúum grasrótar á Alþingi er falið er ekki sjálfsagður hlutur og bíður eðlilega hnekki, innan hreyfingarinnar sem utan, þegar komið er fram með þessum hætti.“