Píratar vilja fella brott lög um helgidagafrið

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Helgi Hrafn Gunnarsson hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um brottfall laga um helgidagafrið. Flutningsmenn ásamt honum koma allir úr Píratahreyfingunni og eru Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

 1. gr.
  Lög um helgidagafrið, nr. 32/1997, falla brott.
 2. gr.
  Lög þessi öðlast þegar gildi.
 3. gr.
  Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971: 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
  Frídagar eru sunnudagar, aðfangadagur jóla frá kl. 13, jóladagur, annar dagur jóla, gamlársdagur frá kl. 13, nýársdagur, skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, annar dagur páska, uppstigningardagur, hvítasunnudagur, annar dagur hvítasunnu, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní.

Með frumvarpinu er lagt til að lög um helgidagafrið, nr. 32/1997, falli brott. Markmið laganna er að vernda helgihald og tryggja frið, næði og hvíld og takmarka afþreyingu fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar. Flutningsmenn sjá ekki ástæðu til að takmarka frelsi fólks með lögum þannig að það varði sektum að standa að t.d. bingói, happdrætti, dansleikjum eða öðrum samkomum á helgidögum þjóðkirkjunnar.

„Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum síðustu ár og áratugi. Samsetning íbúa hefur t.d. breyst mikið hvað varðar trúarbrögð og lífsskoðanir. Þá hefur straumur ferðamanna til landsins aukist mjög, ekki síst um jól og páska. Það skýtur því skökku við að á sama tíma og Ísland er markaðssett sem áfangastaður um hátíðirnar skuli flestir veitingastaðir og búðir lokuð á heilögustu dögunum. Af þeim sökum hafa kröfur um breytingar á helgidagalöggjöfinni orðið háværari undanfarin misseri, enda miklir hagsmunir í húfi.

Þannig hafa forsvarsmenn í verslun og þjónustu lýst því opinberlega yfir að þeir telji að endurskoða þurfi lög um helgidagafrið og hafa þau verið kölluð barn síns tíma. Gerð er sú krafa að atvinnurekendur fái að ráða því sjálfir hvort þeir hafa opið á hátíðisdögum, en þó í samráði við starfsmenn og með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga um hvíldartíma og álagsgreiðslur,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.