Poppstjarna, umboðsmaður hesta, tískuíkon, dagskrárstjóri, fiðlusmiður

Það státa fáir Íslendingar af fjölbreyttari ferli en Jónas R. Jónsson sem fagnar sjötugsafmæli í dag. Hann starfar nú sem fiðlusmiður, en hefur starfað sem dagskrárstjóri í sjónvarpi hér heima og erlendis, verið verslunarstjóri í fataverslunum, verið hvorki meira né minna en Umboðsmaður íslenska hestsins og síðast en ekki síst einhver þekktasta poppstjarna Íslendinga og rómaður söngvari og flautuleikari.

Jónas R. Jónsson er fæddur í Reykjavík 17. nóvember 1948. Fyrsta hljómsveit Jónasar var sett á laggirnar 1965 þegar hann var sautján ára og hét Fimm pens, eða „5 pence“. Hún gerði út á skólaböll og flutti ábreiður þekktra breskra hljómsveita.

Þar næst var Jónas um skamma hríð í hljómsveitinni Toxic, en hann sló fyrst í gegn árið 1968 sem söngvari hljómsveitarinnar Flowers ásamt Arnari Sigurbjörnssyni gítarleikara, Karli Sighvatssyni á hljómborð, Sigurjóni Sighvatssyni á bassa og Rafni Haraldssyni á trommur. Gunnar Jökull Hákonarson tók fljótlega við sem trommuleikari.

Eftir ársdvöl í Flowers stofnaði Jónas hljómsveitina Náttúru ásamt Björgvini Gíslasyni og fleirum.

Hann varð svo verslunarstjóri í nýrri vinsælli herrafataverslunar sem hét Adam og var í Vesturveri við Aðalstræti, þar sem er nú hótel og skrifstofur en var lengi Morgunblaðshöllin.

Jónas með dóttur sinni Margréti þegar hann var ein skærasta poppstjarna okkar Íslendinga.

Svo tók við fjölbreyttur ferill, m.a. sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 og yfirmaður Canal plus, sem umboðsmaður íslenska hestsins og hin síðari ár sem fiðlusmiður við Skólavörðustíg.