Það státa fáir Íslendingar af fjölbreyttari ferli en Jónas R. Jónsson sem fagnar sjötugsafmæli í dag. Hann starfar nú sem fiðlusmiður, en hefur starfað sem dagskrárstjóri í sjónvarpi hér heima og erlendis, verið verslunarstjóri í fataverslunum, verið hvorki meira né minna en Umboðsmaður íslenska hestsins og síðast en ekki síst einhver þekktasta poppstjarna Íslendinga og rómaður söngvari og flautuleikari.
Jónas R. Jónsson er fæddur í Reykjavík 17. nóvember 1948. Fyrsta hljómsveit Jónasar var sett á laggirnar 1965 þegar hann var sautján ára og hét Fimm pens, eða „5 pence“. Hún gerði út á skólaböll og flutti ábreiður þekktra breskra hljómsveita.
Þar næst var Jónas um skamma hríð í hljómsveitinni Toxic, en hann sló fyrst í gegn árið 1968 sem söngvari hljómsveitarinnar Flowers ásamt Arnari Sigurbjörnssyni gítarleikara, Karli Sighvatssyni á hljómborð, Sigurjóni Sighvatssyni á bassa og Rafni Haraldssyni á trommur. Gunnar Jökull Hákonarson tók fljótlega við sem trommuleikari.
Eftir ársdvöl í Flowers stofnaði Jónas hljómsveitina Náttúru ásamt Björgvini Gíslasyni og fleirum.
Hann varð svo verslunarstjóri í nýrri vinsælli herrafataverslunar sem hét Adam og var í Vesturveri við Aðalstræti, þar sem er nú hótel og skrifstofur en var lengi Morgunblaðshöllin.
Svo tók við fjölbreyttur ferill, m.a. sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 og yfirmaður Canal plus, sem umboðsmaður íslenska hestsins og hin síðari ár sem fiðlusmiður við Skólavörðustíg.