Bók vikunnar: Læknishúsið eftir Bjarna Múla Bjarnason.
Í skáldsögunni Læknishúsið eftir Bjarna Múla Bjarnason, notar höfundur sem grunn að sögunni þann tíma er hann bjó með konu sinni, og þáverandi ráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, í Læknishúsinu á Eyrarbakka. Höfundurinn í sögunni er vanur því að vera þarna í næði, að skrifa, en núna, þegar hann lítur út um gluggann, blasir alltaf við lögreglubíll í garðinum.
Ráðherranum, sem gengur undir heitinu Magdalena í sögunni, hafa borist hótunarbréf, og andrúmsloftið er ógnvænlegt. Við þessar kringumstæður byrja undarlegar æskuminningar, frá því höfundurinn, Steinar, bjó í húsinu í æsku, hjá frændum sínum, öðrum blindum, en hinum mállausum, að sækja á hann.
Ósvaraðar spurningar úr fortíðinni leita á hann, taka að ásækja íbúana og hafa ógnþrunginn áhrif á hjónin, börn þeirra, og ráðherrabílstjórann Sigrúnu, sem dregast æ dýpra inn í leyndardóma fjölskyldulífsins.
Úr bókinni:
Þegar langafi hans, Gísli, var skipaður læknir á Eyrarbakka árið 1913, var þar starfandi ungur afleysingalæknir, eftir fráfall gamla héraðslæknisins. Mektarmenn höfðu gert ráð fyrir að hann yrði settur í starfið og voru ósáttir við boðaða komu Gísla. Sú saga komst á kreik að hann væri of stór og svíramikill til að hestar gætu borið hann langa vegu og væri því ófær um að sinna sjúklingum nærliggjandi sveita. Þegar hann svo mætti og reyndist lágvaxinn og nettur, breytti það ekki mati margra sem neituðu að viðurkenna þennan rindil og héldu áfram að sækja læknishjálp til afleysingalæknisins úr sveitinni. Þetta gerði lífsbaráttuna síst auðveldari hjá barnmargri fjölskyldu Gísla sem hafðist við í lekum timburhjalli úti við sjó – en þar sem þetta var fyrsta fasta embætti hans, var hann staðráðinn í að þrauka, sama hvað að höndum bæri.
Á hljóðri sumarnóttu þegar læknirinn hafði staðið upp frá lestri og gengið niður í flæðarmálið til að hlera dáleiðandi lognölduna varð honum litið til hússins. Honum heyrðust bæld köll óma í nóttinni en var ekki viss um hvort þau væru hluti af draumkenndum hugsunum eða ættu uppruna sinn í umhverfinu. Hann hafði skilið gluggann á vinnustofunni eftir opinn og eftir að hafa pírt lúin augun um stund, sá hann ekki betur en inni logaði óvenju glatt á lampanum. Hann skundaði upp slakkann að húsinu og þegar hann skyggndist inn brann tíran yfir lesstólnum jafn hóglega og vant var, en skjalakassarnir við vegginn voru alelda, sem og skrifborðið hans og meðalahillurnar. Eldtungur strukust upp með veggjum og lofti líkt og þær væru mataðar. Engu var líkara en einhver hefði kastað logandi kyndli inn í húsið.
Þegar læknirinn hafði komið sonunum út, sem og einkadótturinni, vinnukonunni og eiginkonunni, taldi hann alla hólpna og tók að huga að innbúinu. Húsið stóð nú í björtu báli og kona hans meinaði honum inngöngu. Hann hafði gefið upp vonina um að bjarga nokkru af eigum þeirra þegar hann heyrði kallað ofan af loftinu: „Ég sé ekkert, getur einhver opnað gluggann, ég er að kafna úr hita hérna uppi!“ Í fátinu höfðu þau gleymt systurdóttur hans sem þau höfðu ættleitt tveimur árum áður og lá á sóttarsæng í risinu. Af ópum hennar að dæma virtist hún nývöknuð og ekki gera sér grein fyrir hvað gengi á.