Rafmyntir og snjallsamningar viðurkennd sem eignir í Bretlandi

Fjármálaþjónusta er stór atvinnugrein í Bretlandi. Mynd/Wikipedia

Vinnuhópur lagatækninefndar hjá breska lögsagnarumdæminu (e. The UK Jurisdiction Taskforce of the Lawtech Delivery Panel, LTDP) gaf út yfirlýsingu í dag þar sem hún viðurkenndi rafmyntir (e. cryptocurrencies) sem „seljanlegar eignir“ samkvæmt enskum og velskum lögum. Yfirlýsingin skilgreinir einnig snjallsamninga (e. smart contracts) sem „aðfararhæfa samninga“ samkvæmt enskum lögum. Um þetta er fjallað á miðlinum Coindesk, sem sérhæfir sig í rafmyntum og öðrum eignum sem nota bálkakeðjutækni.

LTDP er stutt af stjórnvöldum, en átakið er leitt af atvinnulífinu, til að aðlaga bresk lög að tækniþróun. Vinnuhópurinn er einn af sex vinnuhópum undir sömu regnhlíf – er leiddur af Sir Geoffrey Vos, forseta Hæstaréttar Bretlands, og í honum eru einnig Christopher Woolard, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Sir Antony Zacaroli, hæstaréttardómari.

Til að skapa traust á markaði um rafeignir og snjallsamninga

Sir Vos kallaði yfirlýsinguna „þáttaskil“ og sagði að hún taki á ýmsum „erfiðum lögfræðilegum efnum á aðgengilegan og skiljanlegan hátt.“ Starfshópurinn lagði sig fram um að „byggja traust sem skort hefur á markaði og veita réttaröryggi hvað varðar enskan rétt, á sviði sem skiptir sköpum fyrir árangursríka þróun og notkun rafeigna (e. crypto assets) og snjallsamninga í alþjóðlegri fjármálaþjónustu og víðar,“ sagði hann.

Gert er ráð fyrir að yfirlýsingin muni skapa traustan grunn fyrir almenna upptöku á rafrænum eignum og snjallsamningum í Bretlandi, og efla fyrirtæki sem starfa í rafeignaiðnaði.

Sparnaður fæst með sjálfvirkni snjallsamninga

Verkefnahópurinn útskýrði ennfremur mikilvægi snjallsamninga í fréttatilkynningunni:

„Hægt er að nota snjallsamninga til að skapa öruggari og skilvirkari leiðir til að innleiða (og sjálfvirknivæða) samninga á milli aðila. Þetta gæti gjörbylt samningum, allt frá húsnæðislánum og læknisfræðilegum rannsóknum til fasteigna, þar sem snjallir samningar framkvæma viðskipti sjálfkrafa og fjarlægja þörfina á milliliðum.“

Yfirlýsingin var unnin að höfðu samráði við „tæknisamfélagið“ og fjármálaþjónustugeirann, svo og eftirlitsaðila og lagalega sérfræðinga, að sögn Sir Vos.

Framvegis muni lagatækninefndin skoða hvort löggjöf geti verið „skynsamleg“ á sviði rafeigna, sagði hann jafnframt.