Raggi Sót: Nokkrar sögur af meinfýsni og ruddaskap

Raggi Sót, söngvari Skriðjökla.

„Það kemur mér skemmtilega á óvart þegar alþingismenn kvarta og kveina yfir orðfæri nokkurra kollega sinna, sem sátu að sumbli á bar í miðborg Reykjavíkur fyrir skömmu. Grunlausir um, mann-svíðing á næsta borði sem ekki þorir að koma fram undir nafni, en sá sig knúinn til að hljóðrita miður falleg orð hópsins um samstarfsfólk sitt. Ég kem frá Akureyri og hef setið með fullt af fólki, jafnvel allsgáðu sem kyppti sér ekki upp við að uppnefna sveitunga sína og samstarfsmenn og segja af því sôgur, oftast upplognar. Í hópi þessa fólks eru núverandi og fyrrverandi alþingismenn í bland við aðra úr öllum stéttum,“ skrifar Raggi Sót í fjörlegum pistli á fésbókinni í dag.

Raggi Sót, eða Ragnar Gunnarsson, er auðvitað söngvari hinnar goðsagnarkenndu hljómsveitar Skriðjökla frá Akureyri, hvar Logi Einarsson (nú formaður Samfylkingarinnar og alþingismaður) var einnig í sveit settur.

Hann gefur lesendum nokkur dæmi af meinfýsni og ruddaskap sínum og annarra gegnum tíðina:

„Byrjum í flokki manna með óvenjulegan líkamsburð, Nelli feiti, Hanni Feiti, Sossa feita, Sússi mjói, Gunni feiti og látum Óda feita fylgja með. Ekki má gleyma litla og stóra Bretlandi, en það voru systur með gríðarlega ólíkan líkamsburð. Svo var það Sigtryggur bæjartröll, sem eins og gefur að skilja náði varla uppúr stígvélunum. Sagan segir að hann hafi verið iðinn við að dingla á dyrabjöllum vina sinna, jafnvel dag eftir dag með fullann poka af brennivíni og reyndi að véla þá á fyllerí. Þessu var snarlega kyppt í liðinn af ofdekruðum og frekum eiginkonum með því að hækka dyrabjölluhnappinn um 20 cm.

Flokkur leigubílsstjóra, hóla-Binni, Örlygur heysáta, SS-Frissi og Óli vindill, þekktur fyrir að taka helst ekki vindilinn út úr sér, og borða meira af honum en hann reykti.

Flokkur bæjarstarfsmanna, Óli belja, Jörri manni, Tryggvi tventívæn, Humarinn, tóbaks-Steini og Lúlli límonaði sem þótti helst drekka of mikið af Egils appelsíni.

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir

Úr flokki kennara, trölla-pabbi, Spíri, Gráni, Maggi Trabb, Tarzan taugahrúga, Smarti og Skúli súmeri, hann kom því inn í hausinn á mér að súmerar eru víst elsta menningarþjóð í heimi.

Fatlaðir og seinþroska fengu sinn skammt, ég ætla ekki að fara djúpt í það. Hver man ekki eftir Gísla máttlausa KA manni númer 1, Rósu tískó, Jóa hrúðurkalli og Finnboga fingralanga sem stal aldrei neinu heldur fæddist puttalaus.

Ég gæti haldið endalaust áfram, heilu fjölskyldurnar voru uppnefndar, hver man ekki eftir Æbba krull, Litla-víxli og pabba þeirra Ármanni Iðjulausa. Hann vann sér ekkert til saka nema að hætta hjá verkalýðsfélaginu Iðju. 

Oddviti Sjálfstæðisflokksinns í NA kjördæmi til margra ára Lárus Jónsson gekk undir nafninu Lalli lati og allir hlógu dátt.

Sjálfur fékk ég viðurnefni þriggja ára gamall, dugnaður föður míns varð þess valdandi. Hann tók að sér að sóta kolakyndingar sem héldu á fólki hita í þá daga. Ég var svo heppinn að átta mig á því á unglingsárum að betra væri að snúa þessu sér í hag með því að láta sér í léttu rúmi liggja.

Ætla ekki að hafa þetta lengra í dag, en skora á alþingismenn að láta af einelti í garð þeirra þingmanna sem hlupu svo sannarlega á sig. Eins og segir í ævintýrinu góða, öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Þannig gengur okkur bezt.“