Ragnar skjálfti ósáttur: Stefna VG ekkert til að makka um í ríkisstjórn

„Stefna okkar er ekkert til að makka um í ríkisstjórninni, eða í þingflokknum. Ég sem félagi í flokknum, reyndar stofnfélagi, krefst þess að flokksforystan útskýri athafnir sínar á félagsfundi, og taki þátt í því með öðrum flokksfélögum að móta stuðningsyfirlýsingu með Venesúela,“ segir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur, betur þekktur sem Ragnar skjálfti, í harðorðri færslu á fésbók í dag í tilefni stuðningsyfirlýsingar íslenskra stjórnvalda við leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela.

Ragnar er ósáttur við að Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður utanríkismálanefndar og þingmaður VG, hafi einkum gert athugasemd við að stuðningsyfirlýsingin hafi ekki verið kynnt nefndinni áður en hún var sett út. . 

„Nú reyna Trump-menn að safna sem flestum ríkisstjórnum bakvið sig til að undirbyggja næstu skref í valdaráninu. Að taka undir falsfréttir viljugra fjölmiðla Trumps er sama og að undirbyggja næstu aðgerðir hans. 

Ríkisstjórnir Evrópskra kapítalista sem hafa hætt Trump og gefið í skyn hatur sitt á honum fylgja honum nú eins og halaklipptir hundar, hræddir um að næsta árás finngálknisins í vestri lendi á þeim.

En hvað með VG á Íslandi? Öll stefna flokksins, öll umræða á aðalfundum og flokksráðsfundum lofar að flokkurinn styðji alþýðu Venesúela í baráttu hennar við bandaríska heimsvaldastefnu.

Og hvað með lýðræðið í okkar flokki. Stefna okkar er ekkert til að makka um í ríkisstjórninni, eða í þingflokknum. Ég sem félagi í flokknum, reyndar stofnfélagi, krefst þess að flokksforystan útskýri athafnir sínar á félagsfundi, og taki þátt í því með öðrum flokksfélögum að móta stuðningsyfirlýsingu með Venesúela,“ segir Ragnar Stefánsson.