Ragnheiður Elín ráðin verkefnisstjóri Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

Ragnheiður Elín Árnadóttir f.v. ráðherra. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, f.v. ráðherra, hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Reykjavík 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar.

Alls sóttu 45 um starfið en sjö drógu síðar umsóknir sínar til baka. Hlutverk verkefnastjórans er að vinna að undirbúningi hátíðarinnar í samráði við stjórn verkefnisins og Evrópsku kvikmyndaakademíuna. Helstu verkefni framundan að leiða saman samstarfsaðila, halda utan um samningagerð, afla styrkja, og vinna drög að styrktar- og kynningarstefnu verkefnisins. Það var mat stjórnar að Ragnheiður Elín uppfyllti best þær hlutlægu og huglægu kröfur sem settar voru fram í starfslýsingu. Verkefnastjóri vinnur samkvæmt fyrirliggjandi verkefna- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð gagnvart stjórn verkefnisins.

Hátíðin og hliðarviðburðir eru haldin annað hvert ár í Berlín, en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu og laðar að sér fjölmarga erlenda gesti. Vonast er til að hún stuðli að öflugri kynningu og markaðssetningu á Íslandi, Reykjavík sem áfangastað og tökustað fyrir kvikmyndir. Tímasetning hátíðarinnar hentar vel en desember er yfirleitt sá mánuður þar sem líklegt er að slíkir viðburðir hafi hvað jákvæðust áhrif á ferðaþjónustu og atvinnulíf auk þess sem margvísleg mikilvæg tækifæri gefast til þess að vekja athygli á íslenskri menningu.