Reiðin hafi náð tökum á vinstri væng stjórnmálanna

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

„Vonskan er frilla djöfulsins og eitt frjósamt kvikindi.  Ein vonska getur þúsund aðrar af sér og reiðin og heiftræknin er fósturmóðir þeirra allra.“  Þetta hefur Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi eftir Séra Jóni Vídalín, í pistli sínum á ellidi.is í gær. Honum þykir reiðin hafa náð tökunum á vinstri væng stjórnmálanna eftir sjónvarpsþátt Kveiks á Ríkisútvarpinu (RÚV) um Namibíuviðskipti Samherja.

„Svo slæm sem brot í Afríku kunna að hafa verið þá má illskan vegna þeirra hér á landi ekki verða til að valda þjóðinni – sem stendur utan við þetta allt- tjóni.  Reiðin má ekki verða að vonsku.“

Drífa Snædal.

Með þessu gagnrýnir hann orð Drífu Snædal, forseta ASÍ, um málið, þar sem hún sagði m.a. skv. frétt RÚV:

„Það þarf að vinda ofan af þessu hreðjataki sem að stórfyrirtæki hafa, á það hvort að ákveðnar byggðir lifa og, lifa eða deyja, og bara lífsgæðum fólks í nærumhverfinu og völdum og áhrifum.“

„Grannt verður fylgst með viðbrögðum forsætisráðherra og VG í þessu máli“

Jóhanna Sigurðardóttir.

„Katrín Jakobsdóttir og VG standa frammi fyrir prófraun í ljósi taumlausrar græðgi og spillingar sem nú hefur komið upp á yfirborðið í Samherjamálinu. Þetta er spurning um hvort VG eða sérhagsmunaflokkarnir tveir ráði ferðinni í ríkisstjórninni,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, f.v. forsætisráðherra og f.v. formaður Samfylkingarinnar, m.a. á Facebook í gær, og jafnframt: 

„Óhjákvæmilegt er einnig að Alþingi setji sérstaka rannsóknarnefnd í málið, skipaða sérfræðingum utan þings, sem hafi það verkefni að fara ofan í saumana á Samherjamálinu. Grannt verður fylgst með viðbrögðum forsætisráðherra og VG í þessu máli.“

Deilurnar við Samherja faglegar og virðing borin fyrir ólíkum hagsmunum

Elliði segist hafa verið viðloðandi stjórnmál í tæpa tvo áratugi og hafa ýmsa fjöruna sopið í samskiptum sínum við sjávarútvegafyrirtækin – en „hreðjataki“ hafi þó aldrei verið beitt.

„Ólíkt flestum sem tjá sig um málefni Samherja hef ég í lent í sterkum átökum við það félag. Reyndar svo mjög að ég fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar mætti þeim bæði fyrir héraðsdómstóli og síðan fyrir Hæstarétti.  Hagsmunirnir vörðuðu milljarða og átökin mikil.  Málið teygði sig yfir rétt um tvö ár.  Á þeim tíma átti ég samskipti við Þorstein Má [Baldvinsson] og aðra stjórnendur Samherja. Bæði að þeirra frumkvæði og mínum.  Í öllum tilvikum voru samskiptin fyrst og fremst fagleg og einkenndust af virðingu fyrir því að hagsmunir voru ólíkir.“

Elliði minnist „hressilegra“ en þó málefnalegra átaka við Guðmund í Brim

Jafnframt hafi hann átt í „hressilegum“ átökum við Guðmund Kristjánsson í Brimi þegar hann var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum þar sem Guðmundur var einn stærsti atvinnurekandinn – en það hafi þó verið málefnalegar deilur og þeir hafi ekki látið það trufla sig þess utan. 

„Þáttur Kveiks um framkomu Íslendinga í Namibíu vakti manni því undrun.  Miðað við þau gögn sem lögð voru fram virðist margt benda til þess að þar hafi lög verið brotin. Allir eru sammála um að þetta mál þarf að rannsaka og eftir atvikum að dæma í því.  Vísbending um að borið hafi verið fé á þingmenn sósíalista í Namibíu á hinsvegar minna en ekkert tengt við starfsemi í smábæjum á Íslandi.“