Læknir missti vinnuna hjá hinu opinbera í Bretlandi eftir að hafa neitað að vísa til „stæðilegs karlmanns með skegg“ sem „frú“ (e. madame), en frá því segir The Telegraph.
David Mackereth, er lærður í guðfræði og „skammast sín ekkert“ fyrir að vera kristinn og er með þrjátíu ára reynslu af læknisstörfum. Hann hreppti stöðu sem örorkumatslæknir hjá hinu opinbera í maí 2018. Hann missti starfið aftur eftir aðeins mánuð, eftir „yfirheyrslu“ yfirmanns um hvort hann gæti hugsað sér að kalla hvaða stæðilegan, skeggjaðan karlmann sem væri „frú“, ef viðkomandi óskaði eftir því. Honum hafi verið sagt að yfirgnæfandi líkur væru á starfsmissi ef hann gerði það ekki. Mackereth kvaðst vera kristinn og gæti ekki með góðri samvisku orðið við þessari kröfu. Þar með var honum sagt upp.
Kyn væri þá aðeins ímyndun
Málið er nú fyrir rétti, og sem málsgagn lagði Mackereth fram yfirlýsingu: „Ef maður tryði því að kyn væri fljótandi, þá væri kyn ekkert annað en manns eigin ímyndun um sjálfan sig“. Hann sagði við málflutninginn: „Sú staðreynd að draga megi lækni af vettvangi inn í alvarlega yfirheyrslu um það hvort hann trúi á kynsegin hugmyndafræði, er bæði fáránlegt og óhugnanlegt, og ekki bætir það úr skák að hann muni eiga það á hættu að verða rekinn, taki hann ekki undir þessar hugmyndir“.
Hann kvaðst kunna að meta það að í stjórnmálaumhverfi nútímans, kunni fólk að vera honum ósammála og finnast trú hans og skoðanir jafnvel móðgandi. „En í frjálsu þjóðfélagi, þá eru það ekki nægilega brýn rök til að ritskoða skoðanir mínar og þvinga mig til að hegða mér gegn samvisku minni. Ennfremur, sem læknir, þá er skylda mín fyrst og fremst að starfa eftir minni bestu samvisku í þágu skjólstæðinga minna – ekki að taka upp hina ýmsu stæla, gildisdóma eða ímyndanir fólks til að forðast það að móðga einhvern – hvað sem það kostar.“
Pólitískur þrýstingur – ekki staðreynd
Að þessu öllu sögðu kvaðst hann þó gera sér grein fyrir að lítill minnihluti fólks upplifi þessar tilfinningar í raun, að hafa fæðst í röngum líkama, og að hann dragi það ekki í efa. En fram að þessu hafi það verið skilgreint sem ranghugmyndir eða röskun. Breytingin í þá átt að líta á slíkt sem venjulegt og eðlilegt sé vegna pólitísks þrýstings – en ekki vegna vísindalegra staðreynda.