„Augljóst er að Reykjavíkurborg er komin langt út fyrir hlutverk sitt, en það er ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að auglýsa eignir einstaklinga og fyrirtækja á kostnað útsvarsgreiðenda. Það má því velta fyrir sér af hverju þeir sem eru að selja eldri fasteignir fái þá ekki sambærilega auglýsingu frá útsvarsgreiðendum.“
Þetta var á meðal þess sem Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði í fyrirspurn til borgarráðs í morgun vegna 55 blaðsíðna auglýsingabæklings sem barst borgarbúum frá Reykjavíkurborg í gærmorgun. Bæklingurinn inniheldur litmyndir og lýsingar nýjum og fyrirhuguðum byggingum víðs vegar um borgina.
Marta spurði m.a. hvar og hvenær ákvörðun um útgáfu bæklingsins var tekin, hvað hann hafi kostað og hvort að gerð og dreifing hans hafi farið í útboð.
„Er eðlilegt að Reykjavíkurborg haldi úti auglýsingabæklingi fyrir fasteignir?“
Alls eiga að vera 4.164 íbúðir á framkvæmdastigi víðs vegar um borgina. Þar af séu um 2.500 í byggingu fyrir almennan markað og rúmlega 1.600 á vegum húsnæðisfélaga. Opinn kynningarfundur borgarstjóra um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík verður haldinn á morgun frá kl. 9 til 11 í Ráðhúsi Reykjavíkur, skv. tilkynningu frá Reykjavíkurborg.