„Samkeppnisstaða borgarinnar gagnvart ýmsum nágrannasveitarfélögum, sem vilja laða til sín fyrirtæki með hagstæðu skattaumhverfi, til dæmis Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Akranesi, fer hratt versnandi,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, formanni Félags atvinnurekenda, á vefsíðu samtakanna í dag.
Tíu af tólf stærstu sveitarfélögum landsins hafa nú birt frumvörp til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020, en frá þessu greinir Félag atvinnurekenda á vefsíðu sinni í dag.
Reykjavíkurborg, með helming af öllu verslunar- og skrifstofuhúsnæði landsins, mun ekki að lækka fasteignaskatta á næsta ári og mun áfram innheimta hæsta leyfilega hlutfall af fasteignamatsverði atvinnuhúsnæðis, sem er 1,65%. Á Seltjarnarnesi er lagt til að skatthlutföll verði óbreytt á næsta ári, en þau eru þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu.
Akranes og Vestmannaeyjar lækka mest
Mesta lækkunin er fyrirhuguð á Akranesi, en þar á að lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði um 11,4%. Bærinn er nú að hefja kynningu á nýju atvinnuhverfi og hyggst laða til sín fleiri fyrirtæki. Þá verður talsverð lækkun fasteignaskatta í Vestmannaeyjum, þar sem gert er ráð fyrir að hlutfall skatts á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65% í 1,55%.
Lítilsháttar lækkun á fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði verður í Kópavogi og í Mosfellsbæ en einnig er lögð til lækkun á vatns- og fráveitugjöldum þar. Hafnfirðingar hyggjast halda fasteignaskatti óbreyttum eftir umtalsverðar lækkanir síðustu ára. Í Garðabæ er lagt til í frumvarpi að fjárhagsáætlun að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði óbreyttur, en í forsendum fjárhagsáætlunarinnar kemur fram að taka eigi álagningarhlutfallið til skoðunar á milli umræðna í bæjarstjórn.
Fjarðabyggð hyggst jafnframt halda álögum á húsnæði óbreyttum á næsta ári. Á Akureyri er lögð til lítilsháttar lækkun á fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði, en engin lækkun á skatti á atvinnuhúsnæði.