Aðilar á vinnumarkaði geta ekki sett fram fullkomlega óraunsæjar kröfur og beðið svo eftir að ríkisvaldið skeri þá úr snörunni, segir í Staksteinum Morgunblaðsins í dag.
Sem kunnugt er hafa Samtök atvinnulífsins hafnað tillögu Eflingar, en hún gekk út á að stjórnvöld gerðu stórfelldar breytingar á skattkerfinu að forskrift Stefáns Ólafssonar og Indriða Þorlákssonar, sem unnu greiningu um málið fyrir stéttarfélagið.
Er almennt búist við að viðræðum deiluaðila verði slitið í næstu og boðað til verkfalla sem gætu þá hafist í mars.
„Þá er afar sérkennilegt, svo vægt sé til orða tekið, þegar settar eru fram kröfur á hendur kjörnum fulltrúum almennings um að þeir afsali sér valdi í hendur fólks í einu verkalýðsfélagi sem að auki hefur veikt umboð eftir rýran stuðning félagsmanna í kosningu,“ segir ennfremur í Staksteinum.
„Það að Efling telji raunsætt eða viðeigandi að gera kröfu um að tiltekin skýrsla tveggja áhugamanna um aukna skattheimtu verði gerð að skattastefnu Íslands er verulegt áhyggjuefni. Ríkisstjórn sem féllist á slíka kröfu gæti eins hætt störfum samdægurs. Hún hefði þegar sýnt að hún væri búin að missa tökin,“ segir þar jafnframt.