Risaruslaeyjan í Kyrrahafi minnkar eftir hreinsun með nýrri tækni

Sýnt hefur verið fram á að uppfinning hollensks unglings við að hreinsa höfin virkar. Mynd/Oceancleanup.com

Tekist hefur að hreinsa upp úr svæði á stærð við Frakkland, risaruslahaug (e. The Great Pacific Garbage Patch) sem flýtur um í Kyrrahafinu á milli Hawaii-eyja og vesturströnd Bandaríkjanna. Frá þessu greindi breska blaðið Independent í gær.

Notast var við tækni sem ungur hollenskur uppfinningamaður, Boyan Slat, nú 25 ára, fann upp þegar hann var aðeins 18 ára gamall. Flotgildra sem hann hannaði, veiddi með góðum árangri rusl á borð við drauganet, skrifborðsstóla, pasthjálma og dekk, en einnig mikið magn af plastögnum. Gildran er smíðuð úr langri línu af korki, með síðu pilsi, og notast ekki við orkugjafa aðra en öldur sjávar til að sía plastið.

Tæknin þykir nú hafa sannað sig til frekara brúks

Boyan Slat (2018)

Slat kynnti áform sín um að nota þessa tækni við hreinsun hafanna árið 2012, og hefur unnið þrotlaust að nánari útfærslu, smíði og prófun hennar síðan þá.

„Við höfum nú sjálfbært hreinsikerfi í Kyrrahafs-ruslahaugnum, sem notast við náttúruöflin við að veiða og safna saman plasti. Við höfum nú sannreynt kenninguna sem uppfinningin byggir á,“ sagði Slat í yfirlýsingu, um að uppfinningin hans sé nothæf. Framundan sé þó mikil vinna, þar sem gríðarlegt magn plasts sé enn í höfunum, og enn streymir það án afláts í þau.

Fyrr í ár ákváðu umhverfisyfirvöld landa á G20 ráðstefnunni að vinna saman að áætlunum um að draga úr losun plasts í höfin, í gegnum ýmislegar aðgerðir og alþjóðlega samvinnu, sem miðar að því að aðstoða þróunarríkin við umhirðu sorps.