Róbert Trausti ekki lengur fréttastjóri Hringbrautar: Sverja af sér aðkomu hans

Róbert Trausti Árnason fv fréttastjóri.

„Vert að undirstrika að Róbert Trausti Árnason fyrrverandi sendiherra (rtá) er sjálfstæður pistlahöfundur á vef Hringbrautar og hefur enga aðkomu að frétta-og umræðuþættinum 21 né öðrum þáttum stöðvarinnar. Efni pistla Róberts Árna endurspegla ekki efnistök í dagskrá stöðvarinnar. Sama á við um pistla á vefsíðu Hringbrautar undir heitinu Náttfari og Dagfari.“

Þannig hljómar yfirlýsing sem Linda Blöndal, dagskrárgerðarkona á Hringbraut, birti á fésbókarsíðum sínum og Sigmundar Ernis Rúnarssonar, annars dagskrárgerðarmanns stöðvarinnar, nú síðdegis. Tilefnið eru hörð viðbrögð sem skrif Róberts Trausta hafa vakið á vef Hringbrautar, en hann skrifaði m.a. í gær um framgöngu Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og gagnrýndi hana fyrir að segjast hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu þingmanna Miðflokksins og að framkoma hennar í Kastljósinu hefði verið þaulskipulögð og vel sviðsett.

Sjá frétt Viljans í gærkvöldi: Lilja skaut yfir markið með ofbeldistali sínu: Sigmundur kemur alltaf aftur

Átti að efla til muna vefsíðu Hringbrautar

Engin tilkynning hefur verið send út um starfslok Róberts Trausta hjá Hringbraut, en ráðning hans sem fréttastjóra stöðvarinnar var tilkynnt opinberlega á sínum tíma. 

„Auk þess að skrifa fréttir og stýra fréttaflutningi á vef Hringbrautar mun Róbert Trausti skrifa pistla og fréttaskýringar á Hringbraut.is og stýra vikulega sjónvarpsþættinum Heimsljósi á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um utanríkis-og alþjóðamál,“ sagði í tilkynningunni.

Þar var einnig vitnað í sjónvarpsstjóra Hringbrautar, Guðmund Örn Jóhannsson sem fagnaði ráðningu hans sérstaklega. Sagði hann að það sé „mikill styrkur fyrir Hringbraut að fá til samstarfs svo reyndan og öflugan mann enda falli hann vel að þeim sóknaráformum sem Hringbraut hafi og muni hrinda í framkvæmd á nýju ári. Vefurinn Hringbraut.is muni eflast til mikilla muna með honum.“

Linda Blöndal sagði, aðspurð í dag að Róbert Trausti sé ekki lengur fréttastjóri, án þess að skýra það nánar. „Það telst enginn fréttastjóri lengur á Hringbraut og við skipt með öðrum hætti með okkur verkum.“

Róbert Trausti var áður sendiherra í utanríkisþjónustunni og forsetaritari.